Réttarhöld í málinu höfðu staðið í um ár og féll loks dómur í málinu í gær. Alls fórust fimm í árásinni – þar á meðal fimm vikna barn og faðir þess – þegar hinn 52 ára karlmaður ók sendibíl sínum niður göngugötu í Trier sem er að finna í Rínarlandi í vesturhluta Þýskalands.
Maðurinn var ákærður fyrir fimm morð og átján tilraunir til morðs, en saksóknarar í málinu sögðu manninn lengi hafa skipulagt árásina og haft í hyggju að „drepa eða slasa eins marga og mögulegt var“. Dómari í málinu tók undir þessi orð saksóknara.
Í geðmati kom fram að árásarmaðurinn, sem er menntaður rafvirki en án atvinnu þegar árásin var gerð, glími við geðklofa og að hann muni ekkert eftir atburðum dagsins sem um ræðir. Telji árásarmaðurinn sig vera fórnarlamb „umfangsmikils samsæris“ og taldi hann sig sæta ofsóknum og eftirliti.
Árásarmaðurinn sjálfur tjáði sig ekkert á meðan á réttarhöldunum stóð.