Skoðun

Raun­hæfar lausnir fyrir börn og for­eldra í Kópa­vogi

Ásdís Kristjánsdóttir og Orri Hlöðversson skrifa

Leikskólar í hverju sveitarfélagi eru ein af grunnstoðunum samfélagsins. Ekki aðeins sem fyrsta skólastig heldur ekki síður sem þjónusta við börn og foreldra. Í Kópavogi eru um 550 börn sem fá inngöngu í leikskóla haustið 2022. Vissulega viljum við gera betur í þessum efnum og geta boðið börnum inngöngu frá tólf mánaða aldri, en það væru svik við foreldra að lofa slíku í dag. Vandinn er djúpstæðari en svo að hægt sé að leysa hann með loforðum um að byggja fleiri leikskóla. Því nýja leikskóla þarf að manna, bæði með faglærðu og ófaglærðu starfsfólki. Vandi leikskóla er mönnunarvandi sem verður að leysa í skrefum.

Fyrsta skrefið er að mæta strax þeim áskorunum sem felast í fjölgun barna í Kópavogi og vöntun á vistunarúrræðum. Í Kópavogi sjáum við fyrir okkur tvenns konar valkosti fyrir foreldra í þessum efnum. Í fyrsta lagi ætlum við að bjóða upp á aðstöðu fyrir dagforeldra á gæsluvöllum, með færanlegum húsnæðiseiningum þar sem þörfin er mest. Þannig viljum við fjölga dagforeldrum. Í öðru lagi með heimgreiðslu til þeirra foreldra sem kjósa að sinna barninu áfram heima eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær leikskólavist. Þannig bjóðum við foreldrum val.

Næsta skref er að tryggja eftirsóknarvert vinnuumhverfi í skólum bæjarins með bættri aðstöðu fyrir börn og starfsfólk. Við þurfum að samræma starfsumhverfi leik- og grunnskóla með því að skilgreina leikskólastarf og dagvistun. Kópavogsbær mun áfram veita stuðning til náms í leikskólafræðum og skoða möguleikann á að útvíkka slíkan stuðning til að ná til fleiri einstaklinga sem hafa bæði áhuga á að mennta sig í slíkum fræðum og starfa hjá bænum. Við þurfum jafnframt að styrkja ófaglærða starfsmenn til að sækja námskeið sem auka þjálfun og menntun þeirra. Allar þessar leiðir eru til þess fallnar að auka hvata til að vinna á leikskólum Kópavogs og að brúa mönnunarvanda til framtíðar.

Við sem gegnum forystu í Kópavogi lofum ekki innistæðulausum aðgerðum í leikskólamálum sem skapa óraunhæfar væntingar foreldra fyrst um sinn en vonbrigðum síðar. Markmiðin þurfa að vera skýr og leiðin til að ná þeim raunhæf og vel ígrunduð.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs

Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs Kópavogs




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×