Space Launch System (SLS) eldflaug verður notuð til að skjóta Orion geimfari í átt til tunglsins. Geimfarið verður ómannað og mun það ferðast rúmlega tvær milljónir kílómetra á rúmum 42 dögum og lenda í Kyrrahafinu þann 10. október.
Þetta geimskot kallast Artemis-1. Fyrsta mannaða tunglferðin verður Artemis-3 og verður það í fyrsta sinn sem menn fara til tunglsins frá Appollo-17 árið 1972. Vonast er til þess að Artemis-3 fari á loft árið 2025 eða 2026.
Þegar kemur að geimskotum eru allar áætlanir og dagsetningar háðar miklum breytingum
Um borð í geimfarinu verður mikið af vísindabúnaði. Má þar nefna nokkra smá gervihnetti sem kallast CubeSats og eiga meðal annars að leita að vatni á tunglinu, kortleggja gíga og greina yfirborð tunglsins nánar.

Þessir smágervihnettir verða ekki eingöngu notaðir til að rannsaka tunglið. Nokkrir verða sendir langt út í sólkerfið og verða notaðir til að rannsaka geislun, taka myndir af smástirnum og prufukeyra plasma-hreyfla.
Geimfarið verður þar að auki búið skynjurum sem flesta á að nota til að greina alls konar geislun sem finna má í geimnum og rannsaka hvaða áhrif hún mun hafa á geimfara í löngum geimferðum.
Nánari upplýsingar um þennan vísindabúnað má finna í upplýsingapakka NASA um Artemis-1 hér á vef stofnunarinnar.
Hér á neðan má sjá stutt myndband sem útskýrir BioSentinel, sem er einn af þeim smágervihnöttum sem fylgja Orion út í geim.
Auk vísindabúnaðar verða þrjár gínur um borð. Þær kallast Commander Moonikin Campos, Helga og Zohar. Campos verður búinn fjölmörgum skynjurum og íklæddur sama búning og geimfarar munu vera í á næstu árum.
Þessum skynjurum er meðal annars ætlað að greina þá þyngdarkrafta sem Campos verður fyrir við geimskotið og geimferðina og einnig verða geislunarskynjarar í gínunni sem ætlað er að varpa ljósi á það hve mikilli geislun geimfarar verða fyrir svo langt frá hlífðarhjúpi jarðarinnar.

Helga og Zohar eru bara tveir búkar sem hannaðir eru til að líkjast mannslíkömum og verða gínurnar búnar rúmlega 5.600 skynjurum og 34 geislunarmælum. Zohar verður klædd vesti sem á að verja gínuna gegn geislun en Helga verður óvarin.
Þannig vilja vísindamenn NASA kanna hve vel slíkur hlífðarbúnaður virkar. Verði geimför framtíðarinnar fyrir sólstormum gætu geimfarar farið úr sérstökum geislunarskýlum geimfara og haldið störfum sínum áfram á mikilvægum og viðkvæmum köflum geimferða.
Sunrise has never looked better!
— NASA_SLS (@NASA_SLS) August 17, 2022
Check out more beautiful shots from rollout of #Artemis I HERE >> https://t.co/O3WD9HUqtg pic.twitter.com/FIyp024ynl