Sérfræðingur í apabólu hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, Rosamund Lewis segir tilfellið vera það fyrsta sem vitað sé af en tilfellið greindist í París í ítölskum mjóhundi. Guardian greinir frá þessu.
Þó tilfellið sé það fyrsta sem vitað er af hafi möguleikinn verið til staðar í dágóðan tíma og heilbrigðisyfirvöld hafi nú þegar hvatt smitaða einstaklinga til þess að fara varlega í kringum dýr. Mesta hættan skapist ef að apabóla smitist yfir nagdýr og önnur dýr utan heimilisins.
Ekki séu merki um það að apabólan sé að stökkbreytast á hættulegan veg en þegar vírusar fari á milli dýrategunda sé möguleikinn á hættulegum stökkbreytingum til staðar. Fólk þurfi að fara varlega.