Rússnesku tölvuþrjótarnir í hópnum Killnet hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Þeir sögðust hafa gert árás á rúmlega tvö hundruð stofnanir og fyrirtæki í Eistlandi og vísuðu þeir til þess að Eistar ætluðu að fjarlægja minnisvarða.
Árásin sem gerð var árið 2007 var einnig á vegum Rússa en hún var gerð eftir að sovéskur minnisvarði var færður úr miðborg Tallinn. Sú árás stóð yfir í 22 daga.
Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, greindi frá því í gær að allir sovéskir minnisvarðar yrðu fjarlægðir úr almannarýmum.
„Sem tákn um kúgun og sovéskt hernám hafa þeir orðið uppspretta aukinnar félagslegrar spennu – og á þessum tíma verðum við að halda ógnum við allsherjarreglu í lágmarki,“ sagði Kallas á Twitter, en eistnesk stjórnvöld hafa gagnrýnt Rússa harðlega fyrir innrás þeirra inn í Úkraínu.
Sjá einnig: Eistar fjarlægja alla sovéska minnisvarða
Luukas Ilves, úr efnahags og samskiptaráðuneyti Eistlands, tjáði sig um árásina í morgun. Hann sagði á Twitter að árásin hefði verið sú umfangsmesta frá 2007 en illa hefði verið staðið að henni. Því hefði hún lítil áhrif haft í Eistlandi og flestir íbúar hefðu ekki einu sinni tekið eftir henni.
The attacks were ineffective. E-Estonia is up and running. Services were not disrupted. With some brief and minor exceptions, websites remained fully available throughout the day. The attack has gone largely unnoticed in Estonia. (2/4)
— Luukas Ilves (@luukasilves) August 18, 2022
Ríkisútvarp Eistlands hefur eftir embættismönnum að rússnesku tölvuþrjótarnir hafi meðal annars beitt svokölluðum DDOS-árásum, þar sem beindu mikilli netumferð á vefsvæði stofnana og fyrirtækja með því markmiði að setja þau vefsvæði á hliðina. Þeir reyndu einnig að senda tölvupósta til að plata fólk til að gefa upp lykilorð og þá hafa nokkrir tölvuvírusar fundist.
Tölvuþrjótar Killnet gerðu einnig tölvuárásir á stofnanir í Litháen í síðustu viku, eftir að þing ríkisins samþykkti ályktun um að Rússland væri hryðjuverkaríki.