Þrír fangar – þeir Fotios Geas, 55 ára, Paul J DeCologero, 48 ára og Sean McKinnon, 36 ára – hafa nú verið ákærðir vegna morðsins á Bulger.
Bulger, sem stýrði um árabil glæpasamtökum í Boston, var handtekinn í Kaliforníu árið 2011 eftir sextán ár á flótta frá yfirvöldum.
Hann var að afplána tvo lífstíðardóma vegna ellefu morða þegar ráðist var á hann með þeim afleiðingum að hann lést. Sama dag hafði hann verið fluttur í Hazelton-fangelsið í Vestur-Virginíu sem hýsir tæplega 1.400 fanga.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá ákærunum á hendur föngunum þremur í gær. Eru þeir Geas og DeCologero sakaðir um að hafa veitt Bulger fjölda áverka á höfði sem leiddu til dauða hans. Þá er McKinnon ákærður þar sem hann á að hafa borið ljúgvitni í málinu.
Bulger var á flótta undan FBI í heil sextán ár en var handtekinn í Kaliforníu árið 2011 eftir að íslensk kona sem bjó í næsta húsi við hann lét yfirvöld vita.
Bulger stýrði á sínum tíma glæpagenginu Winter Hill í suðurhluta Boston en var einnig sagður hafa verið uppljóstrari fyrir alríkislögregluna FBI. Glæpaferill hans var umfjöllunarefni kvikmyndanna Black Mass með Johnny Depp í aðalhlutverki og sömuleiðis The Departed sem hlaut Óskarsverðlaun sem besta mynd árið 2007.