Kim sagði að ráðamenn í Norður-Kóreu myndu aldrei sætta sig við svo djarfa tillögu og að Yoon ætti frekar að halda kjafti en að varpa frá sér þvælu sem þessari. Enn fremur kallaði hún þá hugmynd að Norður-Kórea myndi fórna „heiðri sínum og kjarnorkuvopnum“ fyrir efnahagssamvinnu, barnalega.
Kim sagði tillöguna varpa ljósi á að Yoon væri einnig barnalegur og einfaldur.
„Enginn selur örlög sín fyrir kornköku,“ sagði Kim samkvæmt Yonhap fréttaveitunni.
Fréttaveitan segir að tillagan hafi fyrst verið opinberuð í maí en Yoon hafi nýverið ítrekað hana. Í stuttu máli felst tillagan í því að hjálpa Norður-Kóreu með hagkerfið, þróun og uppbyggingu innviða. Yoon hefur þó einnig lagt áherslu á að auka hernaðarmátt Suður-Kóreu og hafið á nýjan leik æfingar með herafla Bandaríkjanna.
Kim, sem er háttsett í kommúnistaflokki Norður-Kóreu, hefur lengi verið vígreif í garð nágranna sinna í suðri. Nú í vor hótaði hún því til að mynda að Norður-Kórea myndi gera kjarnorkuvopnaárás á Suður-Kóreu.
Sjá einnig: Hótar að bregðast við minnstu árás með kjarnorkuvopnum
Í áðurnefndri yfirlýsingu sem birt var á vef KCNA, ríkismiðils Norður-Kóreu, í morgun, sakar Kim Suður-Kóreu um að senda „óhreinan úrgang“ til Norður-Kóreu og mun það vera tilvísun í það að ráðamenn í einræðisríkinu hafa haldið því fram að áróðursmiðar sem sendir eru reglulega með blöðrum til Norður-Kóreu hafi borið Covid-19.
Þá gaf Kim einnig út yfirlýsingu og hótaði alvarlegum viðbrögðum við blöðrusendingunum.
Yonhap hefur eftir sameiningarráðherra Suður-Kóreu að ummæli Kim séu óviðeigandi og dónaleg. Það væri miður að ráðamenn í Norður-Kóreu væru að rangtúlka tillögur Yoon og bregðast svona dónalega við.