Margrét Kjartansdóttir var ein þeirra sem tók þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í dag. Hún tók þátt í fyrsta sinn og hljóp tíu kílómetra í rokinu.
Margrét ákvað að hlaupa fyrir góðgerðafélagið Áfram Klara sem stofnað var fyrir hina sex ára gömlu Klöru sem lenti í alvarlegu hoppukastalaslysi í fyrrasumar. Klara er í mikilli endurhæfingu og kemur líklega til með að lifa við hreyfihömlun og málörðugleika ævina út.
Margrét þekkir ekki til Klöru en ákvað að hlaupa fyrir hana þar sem henni finnst fréttir af slysinu sorglegar.
Þú safnaðir næstum 200 þúsund krónum fyrir Klöru, hvers vegna valdiru hana?
„Því hún er svo flott og það er leiðinlegt hvað gerðist. Hún lenti í hoppukastalaslysi á Akureyri.“
Ánægð og stolt
Ertu ekki ánægð með að hafa náð að safna þessum peningi til að styrkja hana?
„Jú rosalega ánægð, stolt.“
Fannst þér ekkert smá kalt í hlaupinu?
„Nei, ekki þegar maður byrjar að hlaupa,“
Frábær tími hjá þér, hvað varstu lengi að hlaupa þetta?
„Klukkutími og tvær mínútur, “ segir Margrét og kveðst ánægð með árangurinn.