Fótbolti

Sjáðu mörkin: Arnór skoraði skrautlegu tapi Norrköping

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Sigurðsson skoraði sárabótamark.
Arnór Sigurðsson skoraði sárabótamark. Getty/Juan Manuel Serrano Arce

Íslendingalið Norrköping tapaði 4-2 á heimavelli fyrir AIK í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Norrköping var manni fleiri lungann úr leiknum en þrjú mörk voru skoruð í uppbótartíma.

Nafnarnir Arnór Ingvi Traustason og Arnór Sigurðsson byrjuðu báðir á miðju Norrköping í dag. Ari Freyr Skúlason var fjarri góðu gamni og þá var Andri Lucas Guðjohnsen á bekk liðsins.

Yasin Abbas Ayari kom AIK yfir á 13. mínútu leiksins og Nicolas Stefanelli tvöfaldaði forystuna á 36. mínútu eftir stoðsendingu frá Nabil Bahoui. Bahoui skoraði svo sjálfur þriðja markið aðeins tveimur mínútum síðar.

Þremur mínútum eftir þriðja markið, á 41. mínútu fékk Vincent Thill, leikmaður AIK, beint rautt spjald. Norrköping lék því manni fleiri það sem eftir lifði leiks.

Andri Lucas kom inn af bekknum á 57. mínútu en Arnóri Ingva var skipt af velli á 69. mínútu leiksins. Norrköping sótti í sig veðrið í seinni hálfleik en það tók liðið óratíma að nýta sér liðsmuninn.

Arnór Sigurðsson minnkaði muninn fyrir Norrköping á 91. mínútu  og lagði upp annað mark fyrir Maic Sema á 96. mínútu. Liðið henti fullmörgum leikmönnum fram í hornspyrnu í restina, þar á meðal markverðinum, og refsaðist fyrir það er Erick Otieno gerði út um leikinn á áttundu mínútu uppbótartíma.

Leiknum lauk 4-2 og Norrköping er með 20 stig í 11. sæti deildarinnar. AIK er með 35 stig í 4. sæti, þremur frá toppliðum Djurgården og Häcken.

Jafnt hjá Elfsborg

Bróðir Andra Lucasar, Sveinn Aron Guðjohnsen kom einnig af bekknum er lið hans Elfsborg gerði 1-1 jafntefli við Vaernamo á útivelli.

Marcus Andersson kom Vaernamo yfir á 2. mínútu leiksins en sjálfsmark leikmanns Vaernamo á 51. mínútu jafnaði leikinn fyrir Elfsborg.

Hákon Rafn Valdimarsson lék allan leikinn milli stanganna hjá Elfsborg en Sveinn kom inn af bekknum á 70. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×