Víkingur var mættur til Þýskalands til að spila Grieg's concerto á tónlistarhátíð í Bremen en fólkið á bak við hátíðina reyndist honum vel. Fljótlega var honum komið til læknis sem útvegaði honum lyf til að laga sýkinguna. Læknirinn, sem var svo sannarlega til staðar fyrir Víking, átti svo miða á tónleika hans um kvöldið og mætti fyrst á búningaæfinguna til öryggis, ef ske kynni að Víkingur þyrfti á henni að halda.

Stuttu síðar deildi Víkingur batanum á Instagram sögu sinni þar sem sýkingin virðist hafa gengið niður rétt fyrir fyrstu tónleikana. Þar skrifaði Víkingur:
„Bæting! Þetta var rétt fyrir fyrstu tónleikana. Guði sé lof fyrir lyf. Ég fann ennþá svolítið til en náði að komast í gegnum báða tónleika. Og tónleikarnir gengu mjög vel, þrátt fyrir allt.“

Blómvöndur fyrir lækninn
Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar Víkingur gaf lækninum blómvöndinn sem hann fékk að loknum tónleikum.
„Ég gaf lækninum blómvöndinn, auðvitað. Hversu frábær manneskja. Hún keyrði meira að segja á hótelið til mín með sérstakt smyrsli þegar ég var að fara klukkan hálf sjö í morgun,“ skrifaði Víkingur að lokum.

Það er nóg um að vera hjá Víkingi þessa dagana en hann er nú mættur til Spánar þar sem hann spilar í San Sebastián í kvöld.