Erlent

Lög­reglu­menn létu höggin dynja á manni sem þeir héldu niðri

Bjarki Sigurðsson skrifar
Í myndbandinu má sjá lögreglumennina lúberja manninn sem þeir halda niðri.
Í myndbandinu má sjá lögreglumennina lúberja manninn sem þeir halda niðri.

Tveir lögreglumenn hafa verið sendir í leyfi eftir að myndband af þeim að kýla og sparka í mann sem þeir héldu niðri fór í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Atvikið átti sér stað í Arkansas-ríki í Bandaríkjunum í gærmorgun. Lögreglu hafði þá borist tilkynning um að Randall Worcester, 27 ára karlmaður, væri með ógnandi tilburði í verslun í bænum Mulberry.

Þegar lögregla mætti á staðinn og ræddi við Worcester ýtti hann einum lögreglumannanna og kýldi hann í hnakkann. Við það var hann handtekinn, tekinn niður og hófu mennirnir að kýla og sparka í hann á meðan hann lá á jörðinni.

Kona náði myndbandi af atvikinu og birti á samfélagsmiðlum. Hún sat í bíl fyrir utan verslunina en fór og reyndi að fá lögreglumennina til þess að hætta að berja manninn. Myndbandsupptakan stoppaði stuttu eftir að hún fór úr bílnum en sjá má þegar einn lögreglumannanna reynir að reka hana í burtu.

Tveir af lögreglumönnunum hafa nú verið sendir í leyfi vegna atvikisins og verður það rannsakað af lögreglunni í Arkansas.

BBC hefur eftir lögreglustjóranum í Mulberry að litið sé á málið með alvarlegum augum. Teknar verða viðeigandi ráðstafanir vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×