Erlent

Fauci fetar í fótspor Þórólfs

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var ekki mjög hrifinn af Anthony Fauci, einum helsta sóttvarnasérfræðingi Bandaríkjanna. Joe Biden gerði hann hins vegar að sérstökum ráðgjafa forsetaembættisins
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var ekki mjög hrifinn af Anthony Fauci, einum helsta sóttvarnasérfræðingi Bandaríkjanna. Joe Biden gerði hann hins vegar að sérstökum ráðgjafa forsetaembættisins Getty/Drew Angerer

Sóttvarnarlæknir Bandaríkjanna, Anthony Fauci mun láta af störfum í desember á þessu ári. Fauci mun því feta í fótspor kollega síns, Þórólfs Guðnasonar, sem lætur af störfum sem sóttvarnarlæknir hér á landi í byrjun september. Báðir hafa þeir háð hetjulega baráttu við veiruna skæðu.

Fauci tilkynnti um starfslokin í dag.

„Þrátt fyrir að ég sé að færa mig um set, er ég ekki að fara á eftirlaun. Eftir fimmtíu ára starf hjá hinu opinbera, mun ég taka skrefið í átt að næsta kafla á mínum ferli á meðan ég hef orku til," segir Fauci í tilkynningu.

Hann vildi þó ekki gefa það upp hvað hann muni taka sér fyrir hendur en hyggst hætta sem sóttvarnarlæknir við lok kjörtímabils Joes Biden Bandaríkjaforseta í janúar 2025.

Fauci hóf störf hjá sóttvarnarembætti Bandaríkjanna (NIAID) árið 1968 og hefur gegnt embætti sóttvarnarlæknis frá árinu 1984. Þá var hann sérstakur læknisfræðilegur ráðgjafi Joes Biden frá því í janúar 2021.

Í yfirlýsingu frá Biden lýsir forsetinn Fauci sem „tryggum opinberum starfsmanni sem, með visku og innsæi, hefur af kostgæfni fengist við hættulegustu og mest krefjandi lýðheilsukreppur okkar tíma.“


Tengdar fréttir

Fauci kom ekkert á óvart að Trump smitaðist

Veikindi Donalds Trump Bandaríkjaforseta af völdum kórónuveirunnar komu Anthony Fauci, helsta sóttvarnasérfræðingi Bandaríkjastjórnar, ekki ögn á óvart eftir að hann sé Trump taka þátt í viðburði í Hvíta húsinu þar sem sóttvarnatilmæli voru virt að vettugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×