„Það var geðveikt að ná þessum sigri. Það var gott að ná að skora tvö mörk, stuðningurinn var góður og svo spilaði ég í Njarðvík sem gerði sigurinn gegn Keflavík enn sætari,“ sagði Úlfur Ágúst kátur eftir leik.
FH-ingar lögðu allt í sölurnar utan vallar. Boðið var frítt á völlinn og var ákall frá stjórn félagsins að fá fólk á völlinn. Úlfur sagði að það hafi kveikt í leikmönnum FH.
„Við vorum ekkert eðlilega peppaðir fyrir þennan leik og mér fannst við sýna það í frammistöðu inni á vellinum.“
Úlfur Ágúst skoraði þrjú mörk í kvöld en aðeins tvö fengu að standa. Úlfi fannst hann þó ekki vera rangstæður þegar flaggið fór á loft.
„Ég var aldrei fyrir innan og man ég ekki til þess að hafa klárað færi eins vel og ég gerði þarna í þriðja markinu,“ sagði Úlfur og hélt áfram.
„Ég skoraði líka í Vestmannaeyjum en það var skráð sem sjálfsmark en ég ætla ekki að fara út í það. Það var fínt að skora og þetta var flott frammistaða.“
FH kallaði Úlf til baka úr láni frá Njarðvík og fannst honum ekkert mál að aðlagast þar sem hann var búinn að vera með FH á undirbúningstímabilinu.
„Ég ólst hérna upp og var með þeim á undirbúningstímabilinu og það var lítið mál að aðlagast. Mér fannst erfitt að fara úr Njarðvík en ég var tilbúinn í þetta.“
„Ég vann Keflavík með Njarðvík og FH svo þetta var mjög sætt,“ sagði Úlfur Ágúst Björnsson að lokum.