Erlent

Tóku mynd berar að ofan í for­sætis­ráð­herra­bú­staðnum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Myndin var tekin í samkvæmi heima hjá Sönnu.
Myndin var tekin í samkvæmi heima hjá Sönnu. Furkan Abdula/Getty

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur beðist afsökunar á mynd sem áhrifavaldur tók inni á baðherbergi forsætisráðherrabústaðarins. Á myndinni var áhrifavaldurinn, ásamt annarri konu, búinn að lyfta bol sínum. Brjóst þeirra voru falin með skilti sem Sanna fékk á blaðamannafundi hjá Evrópusambandinu.

Finnskir miðlar grófu í dag upp skjáskot úr myndbandi sem finnski áhrifavaldurinn Sabina Särkkä birti á TikTok-síðu sinni fyrr í mánuðinum. Särkkä var gestur í sánusamkvæmi heima hjá Sönnu í forsætisráðherrabústaðnum.

Á skjáskotinu má sjá Särkkä kyssa aðra konu en nafn hennar hefur ekki verið gert opinbert. Þær halda báðar bol sínum uppi og fela brjóst sín með skilti sem Sanna notaði á blaðamannafundi tengdum inngöngu Finna í Evrópusambandið.

Bakgrunnurinn á myndinni er blátt skilti sem ríkisstjórnin notar á blaðamannafundum sínum. Sanna vill meina að einhver hluti myndarinnar sé falsaður og líklegt er að hún sé að tala um bakgrunninn.

Sanna hefur beðist afsökunar á þessu og sagt að myndin hafi aldrei átt að vera tekin. Hún segir þó að gestir samkvæmisins hafi einungis fengið að fara inn í bústaðinn til þess að nota klósettið.

Einkalíf Sönnu hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið en í síðustu viku fór myndband í dreifingu þar sem hún sást vera að dansa með vinum sínum í einkasamkvæmi. Einhverjir andstæðingar hennar í stjórnmálunum sökuðu hana um að vera á eiturlyfjum þegar myndbandið var tekið.

Hún tók fíkniefnapróf sem sýndi fram á að hún hafi ekki tekið eiturlyf þetta kvöld. Hún hefur haldið því staðfastlega fram að hún hafi einungis neytt áfengis kvöldið sem myndbandið var tekið.


Tengdar fréttir

Nýju mynd­bandi af Sönnu Marin lekið

Nýju myndbandi af Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur verið lekið á netið. Í myndbandinu sést hún dansa þétt upp við finnsku rokkstjörnuna Olavi Uusivirta. Talið er að myndbandið hafi verið tekið sama kvöld og hin myndböndin sem lekið var fyrr í vikunni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×