Erlent

For­sætis­ráð­herra Taí­lands vikið tíma­bundið úr em­bætti

Atli Ísleifsson skrifar
Deilt er um hvort forstætisráðherrann Prayuth Chan-ocha hafi setið lengur en þau átta ár sem stjórnarskrá landsins gerir ráð fyrir.
Deilt er um hvort forstætisráðherrann Prayuth Chan-ocha hafi setið lengur en þau átta ár sem stjórnarskrá landsins gerir ráð fyrir. AP

Æðsti dómstóll Taílands hefur tilkynnt að forsætisráðherranum Prayuth Chan-ocha hafi verið vikið tímabundið úr embætti.

Dómstóllinn hyggst taka til meðferðar kæru sem snýr að því hvort að Prayuth Chan-ocha hafi setið lengur í embætti en lög landsins geri ráð fyrir. Meirihluti dómara var fylgjandi því að forsætisráðherranum yrði vikið frá þar til að niðurstaða fæst í málinu.

Ekki er að fullu ljóst hver verði starfandi forsætisráðherra, en lögum samkvæmt ætti það að verða aðstoðarforsætisráðherrann Prawit Wongsuwan. Hann er náinn bandamaður Prayuth Chan-ocha og hluti af sömu klíku innan taílenska hersins sem kom Prayuth Chan-ocha í forsætisráðherrastólinn að loknu valdaráni hersins.

Stjórnarandstaðan í Taílandi vill meina að Prayuth Chan-ocha ætti að fara frá þar sem stjórnarskrá landsins geri ráð fyrir að forsætisráðherra geti einungis setið í átta ár í embætti. Vill stjórnarandstaðan meina að þessi átta ár hafi runnið sitt skeið síðastliðin þriðjudag.

Stuðningsmenn Chan-ochas eru þó ekki sammála þessari túlkun þar sem ný stjórnarskrá hafi tekið gildi 6. apríl 2017 og því sé rétt að miða við þá dagsetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×