Undanfarnar tvær vikur hafa meira en 60 prósent af landi Texas-ríkis þurft að þola þurrka af öflugustu gerð, að sögn þurrkavaktar bandarískra veðurstofa.
Líkt og víðar um heim hafa þurrkarnir í Texas haft mikil áhrif á vatnsborð áa og stöðuvatna. Í þjóðgarði Risaeðludals þornaði Paluxy-á nær algjörlega upp og á botni hennar komu þá í ljós risaeðluspor sem eru talin vera 113 milljón ára gömul.
Að sögn Stephanie Salinas Garcia, talsmanns þjóðgarðsins, tilheyra flest sporanna risaeðlu af gerðinni Acrocanthosaurus, tvífætt rándýr sem var um fjórir og hálfur metri að hæð og næstum sjö tonn að þyngd.
Salinas Garcia segir ekki enn ljóst hversu mörg risaeðluspor hafi fundist né hversu lengi þau muni vera sjáanleg. Líklega munu þau hverfa aftur undir vatn þegar fer að rigna á ný.
Hér fyrir neðan má sjá myndband sem samtök risaeðluvina tóku af sporunum á vettvangi.