Viðburðarfyrirtækið Reykjavík Live, sem stendur að baki tónleikunum, birti færslu á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem þau greindu frá nýju dagsetningunni.
Þar segir að þau hafi unnið að því síðustu tvo daga „með Lewis og hans fólki ásamt Laugardalshöllinni að finna nýja lausa dagsetningu“ fyrir tónleikana sem verði föstudaginn 11. ágúst 2023.
Ætla að reyna að bæta fólki tjón
Einnig kemur fram í færslunni að allir keyptir miðar muni gilda á nýju dagsetninguna og að þeir sem sjái sér ekki fært að mæta geti sótt um endurgreiðslu.
Þá segir að miðahafar ættu að hafa fengið tölvupóst með upplýsingum um hvernig megi óska eftir endurgreiðslu. Hafi miðakaupendur ekki fengið póst sé hægt að hafa samband við skipuleggjendur á Facebook eða info@reykjaviklive.is til að fá aðstoð.
Eftir að tónleikunum var frestað í fyrradag greindu margir óánægðir miðakaupendur frá því að þeir hefðu tapað tugum þúsunda vegna frestunarinnar og stutts fyrirvara hennar. Meðal þeirra var Reyðfirðingur sem segist hafa tapað hundrað þúsund krónum.
Í viðtali við Vísi í gær sagði Jón Bjarni Steinsson, einn skipuleggjenda, að Reykjavík Live væri búið að taka saman nöfn fólks sem hefði borið fjárhagslegt tjón vegna frestunarinnar og að þau myndu reyna að bæta fólki tjónið.