Umfjöllun og viðtöl: ÍBV-Stjarnan 3-1 | Frábær Eyjasigur á tíu Stjörnumönnum

Einar Kárason skrifar
Andri Rúnar Bjarnason skoraði tvö mörk á þremur mínútum.
Andri Rúnar Bjarnason skoraði tvö mörk á þremur mínútum. Vísir

Það var úlpuveður í stúkunni á Hásteinsvelli þegar ÍBV tók á móti Stjörnunni í Bestu deild karla í dag. Örlítið blés úr austanátt en aðstæður annars í fínu lagi. 

Heimamenn höfðu átt fínu gengi að fagna áður en þeir töpuðu gegn Skagamönnum í síðustu umferð og soguðust með því aftur í kjallarabaráttuna. Gestirnir úr Garðabæ hafa átt misgóðu gengi að fagna í sumar en frá því að liðið vann frækinn sigur á toppliði Breiðabliks hafði liðið fengið á sig tíu mörk í síðustu tveimur leikjum fyrir daginn í dag. Það var því erfitt að spá til um hvort liðið væri sigurstranglegra þrátt fyrir að Stjarnan hafi setið fjórum sætum ofar með þrettán stigum meira en Eyjaliðið.

Leikurinn fór erfiðlega af stað fyrir gestina en strax á fimmtu mínútu þurfti Emil Atlason að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Í hans stað kom Ólafur Karl Finsen.

Leikurinn einkenndist af mikilli hörku í upphafi leiks en skortur var á alvöru marktækifærum. Ólafur karl átti fyrsta alvöru marktækifæri leiksins eftir um stundarfjórðung en skallaði boltann framhjá markinu eftir fyrirgjöf frá vinstri. Stjörnumenn sáu mikið til boltans og voru líklegri til að brjóta ísinn. Þeir voru ekki langt frá því þegar Tristan Freyr Ingólfsson fann Guðmund Baldvin Nökkvason inni í teig ÍBV en fast skot Guðmundar small í þverslánni og niður í grasið áður en heimamenn náðu að hreinsa.

Einungis mínútum síðar var ísinn þó brotinn. Vörn ÍBV var þá útum allan völl þegar Guðmundur Baldvin fann Ísak Andra Sigurgeirsson við teigboga. Ísak lagði boltann út á Einar Karl Ingvarsson sem fékk bæði tíma og pláss til að stilla miðið áður en hann lagði boltann í hornið vinstra megin þar sem Guðjón Orri Sigurjónsson, markvörður ÍBV, kom engum vörnum við. Gestirnir komnir með verðskuldaða forustu. 

Stjarnan var svo nálægt því að tvöfalda forskotið stuttu síðar þegar Eggert Aron Guðmundsson átti hörkuskot meðfram jörðinni sem small í stönginni fjær og þaðan út í teig. Eggert var svo aftur á ferðinni þegar hann fann Guðmund inni í teig Eyjamanna en Guðmundur setti boltann framhjá úr kjörstöðu.

Eftir rúmlega hálftíma leik lifnaði aðeins við Eyjaliðinu sem fór að færa sig framar á völlinn og skapa sér færi. Jöfnunarmarkið kom hinsvegar upp úr engu. Elvis Bwomono átti þá langa sendingu úr öftustu varnarlínu, inn í teig gestanna þar sem Andri Rúnar Bjarnason var mættur. Andri þurfti ekki einu sinni að lyfta sér upp til að skalla boltann framhjá Haraldi Guðmundssyni í marki Stjörnunnar. 

Eyjamenn voru hinsvegar ekki hættir en einungis þremur mínútum síðar voru þeir komnir yfir og aftur var það Andri Rúnar að verki. Halldór Jón Sigurður Þórðarson fékk þá boltann vinstra megin í teig Garðbæinga, sendi boltann meðfram jörðinni, á Andra sem fékk alltof mikinn tíma til að athafna sig áður en hann setti boltann í hornið framhjá Haraldi. 

Tvö mörk á örskömmum tíma og ÍBV komið yfir þegar einungis mínútur eftir lifðu hálfleiks. Ekki urðu mörkin fleiri áður en flautað var til hálfleiks og spennandi síðari hálfleikur framundan. 

Eyjamenn hófu síðari hálfleikinn af krafti og gerðu sig líklega í tvígang strax á fyrstu mínútu. Rétt eins og í fyrri hálfleik létu færin á sér standa en síðari hálfleikur var þó ekki orðinn tíu mínútna gamall þegar næsta stóra atvik átti sér stað. Alex Freyr, fyrirliði heimamanna, var á hraðri ferð upp völlinn eftir að hafa varist hornspyrnu gestanna þegar brotið er á honum. Jóhann Árni Gunnarsson var þar að verki en hann hafði fengið að líta gula spjaldið í fyrri hálfleik og fékk þar með sitt seinna gula og þar með rautt. Stjörnumenn því marki undir og manni færri.

Ekki skánaði það tveimur mínútum síðar þegar Andri Rúnar átti hreint stórkostlega sendingu innfyrir vörn Stjörnunnar. Arnar Breki Gunnarsson skaut að marki en Haraldur varði vel. Boltinn barst hinsvegar beint aftur á Arnar sem átti ekki í vandræðum með að koma boltanum í autt markið. 

Tristan Freyr Ingólfsson fékk kjörið tækifæri til að minnka muninn stuttu síðar eftir sendingu frá Eggerti Aroni en skot Tristans ekki nægilega gott og auðvelt viðureignar fyrir Guðjón Orra. Bæði lið fengu tækifæri til að skjóta á markið en lítið var um dauðafæri það sem eftir lifði leiks. Það besta fékk Jose Sito, sem komið hafði inn sem varamaður í lið ÍBV, þegar hann lét vaða úr þröngu færi en Haraldur varði vel. Sito hafði Andra Rúnar með sér og hefði líklega getað sent á samherja sinn sem var í leit að þrennunni. 

Sito fékk annað færi stuttu síðar en þá endaði boltinn í höndum Haraldar. Guðjón Ernir Hrafnkelsson átti síðustu markverðu marktilraunina í leiknum en boltinn himinhátt yfir markið. Stuttu síðar var flautað til leiksloka. Niðurstaðan 3-1 og þrjú góð stig í pokann hjá Eyjamönnum en Stjarnan fjarlægist Evrópu með hverjum leiknum.

Af hverju vann ÍBV?

Leikurinn hefði getað spilast allt öðruvísi hefðu Stjörnumenn klárað þau færi sem þeir fengu í upphafi leiks. Eyjamenn komu sér inn í leikinn og skoruðu tvö góð mörk fyrir hálfleik og eftir að Stjarnan missti mann af velli og þriðja markið leit dagsins ljós spilaði ÍBV leikinn af mikilli yfirvegun og fagmennsku.

Hverjir stóðu upp úr?

Andri Rúnar, Arnar Breki og Alex Freyr voru frábærir í liði ÍBV í dag. Hægt er að taka þessa þrjá út fyrir sviga en hægt hefði verið að nefna alla leikmenn liðsins á nafn í dag. Alex Freyr bar fyrirliðabandið í dag og sást greinilega hversu mikið hans var saknað í leiknum á undan gegn ÍA.

Hvað gekk illa?

Færanýting gestanna var ekki nægilega góð og í stöðunni 0-1 sáu heimamenn leik á borði og færðu sig framar á völlinn með ofangreindum árangri. Einnig verðum við að óska Emil Atlasyni góðs bata en framherjinn stæðilegi varð að yfirgefa völlinn vegna meiðsla strax í upphafi leiks.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn mæta Víkingum í Fossvogi í næstu umferð á meðan Stjörnumenn fá Keflvíkinga í heimsókn. Þessir leikir fara fram á sunnudaginn eftir viku.

Hermann: Héldum áfram að gera það sem virkar vel

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

,,Alveg frábær tilfinning og frábær tilfinning að spila góðan fótbolta," sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, kátur að leik loknum. ,,Við vorum ekki eins góðir og við getum verið síðustu helgi en í dag vorum við það. Við áttum þrjú stig fyllilega skilið."

,,Það var smá gæðaleysi í okkur í byrjun. Við vorum að taka lélegar ákvarðanir og gæði í sendingum. En að sama skapi sýndum þvílíkan karakter. Við brotnuðum ekki við það að lenda undir. Við vissum að við ættum inni þannig að menn eiga stórt hrós fyrir. Við ætluðum okkur sigur í dag og vitum hvað við þurfum að gera til að spila góða fótboltaleiki. Þá hefur það fylgt með upp á síðkastið að fá þrjú stig."

,,Þú mátt ekki gefa færi á þér því þér verður refsað fyrir það. Það kom aðeins meiri fókus í okkar leik og með þessum krafti og gæðum og þá fannst mér við taka þennan leik.".

Eftir að Stjörnumenn misstu mann af velli og þriðja markið kom sýndu heimamenn yfirvegun

,,Ég verð að taka undir það. Þetta var 'professional performance'. Tvö - eitt er stórhættuleg staða. Þá ferðu oft að halda einhverju svo við urðum bara að halda áfram að gera það sem virkaði vel. Keyra á þá og setja þá undir pressu. Það tókst hjá okkur og sjálfstraustið jókst," sagði Hermann.

Ágúst: Þeir ganga á lagið

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Bára Dröfn

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum svekktur í leikslok. ,,Við gerðum okkur þetta erfitt fyrir í dag. Við hefðum átt að skora allavegana þrjú mörk í fyrri hálfleik. Við skoruðum eitt, skutum í stöngina og slánna, þannig að þetta var ekki að falla með okkur. Þegar Eyjamenn komust í gírinn, með sína löngu bolta, inn í hjarta varnar okkar og ná að skora þannig. Það er reyndar vel gert hjá Andra Rúnari en þetta er svekkjandi þar sem við vorum með góð tök á leiknum."

,,Auðvitað er það þannig að ef þú skorar ekki og andstæðingurinn kemst inn í leikinn. Eyjamenn náttúrulega skora jöfnunarmark og allt verður 'crazy'. Hjá leikmönnum, þjálfara og stuðningsmönnum. Þá ganga þeir bara á lagið. Á ákveðnum tímapunkti keyra þeir yfir okkur og skora tvö mörk. Við náum ekki að koma til baka og fáum svo rautt spjald í seinni hálfleik sem gerði okkur erfiðara fyrir."

Langur bolti. Skalli. Mark

,,Ég held að þetta hafi verið það mark sem að þeir fá aukaspyrnu hátt á vellinum og er tekin á kolröngum stað. Mér fannst þetta ekki vera aukaspyrna, og svo kemur markið í kjölfarið. Það var högg fyrir okkur. Við vorum gíraðir í þennan leik og ætluðum að taka þessi þrjú stig. Þeir komast þarna yfir, í bæði stúkunni, á bekknum og inni á vellinum. Við þurfum að fara betur yfir það. Við gerum okkur þetta ekki auðvelt fyrir. Það er bara næsti leikur."

,,Við höfum spilað glimrandi vel heilt yfir í mótinu en síðustu þrír leikir hafa verið vonbrigði. Við þurfum að rífa okkur í gang."

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira