Umfjöllun,viðtöl og myndir: KR-FH 0-0| Vögguvísa á Meistaravöllum

Andri Már Eggertsson skrifar
Það var hart barist á Meistaravöllum í kvöld
Það var hart barist á Meistaravöllum í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Það var mikið húllumhæ fyrir leik KR og FH. Ný útgáfa af stuðningsmannalagi KR, Öll sem eitt var frumflutt og var fjölmennt á vellinum.

Leikurinn var einn sá allra lokaðasti sem hefur verið spilaður á tímabilinu og var afar lítið um marktækifæri og var markalaust jafntefli niðurstaðan. 

Leikurinn fór rólega af stað. Hvorugu liðinu tókst að skapa sér færi á fyrstu tuttugu mínútunum. Eftir því sem leið á fyrri hálfleik fór að færast aðeins meira líf á Meistaravelli.

Theodór Elmar Bjarnason í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

FH-ingar sköpuðu sér nokkur marktækifæri með því að beita skyndisóknum en skyndisóknirnar áttu það allar sameiginlegt að það voru teknar lélegar ákvarðanir á síðasta þriðjungi.

Atli Sigurjónsson átti lang hættulegasta færi fyrri hálfleiks. Eftir gott spil við Sigurð Bjart sem dró menn til sín inn í teig og kom boltanum á Atla sem náði föstu skoti þrátt fyrir að þurfa að teygja sig í boltann en skotið fór rétt yfir markið.

Það var hart barist á MeistaravöllumVísir/Hulda Margrét

Tveimur mínútum eftir skot Atla var flautað til hálfleiks. Liðunum gekk bölvanlega að skapa sér færi og það kom á óvart að enginn áhorfandi hafi farið í hálfleik.

Takturinn í síðari hálfleik var alveg eins og í fyrri hálfleik til að byrja með. Liðin voru í vandræðum með að skapa sér færi en sóknarþungi liðanna jókst aðeins þegar líða tók á leikinn.

Atli Sigurjónsson var líflegastur hjá KRVísir/Hulda Margrét

Þau færi sem heimamenn fengu komu flest öll í gegnum Atla Sigurjónsson sem var nokkuð líflegur. Atli var nálægt því að koma KR yfir um miðjan seinni hálfleik en skot hans sleikti stöngina.

Á 89. mínútu vildi FH fá víti. Það kom skoppandi bolti fyrir framan Vuk Oskar Dimitrijevic í teignum þar sem Vuk ætlaði að láta vaða en Kristinn flæktist í honum. Hvorugu liðinu tókst að skora og var niðurstaðan markalaust jafntefli.

Markalaust jafntefli var niðurstaðanVísir/Hulda Margrét

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

KR-ingar hafa verið með það í kollinum að ætla ekki að spila sama varnarleik og í síðustu umferð þegar þeir fengu á sig fjögur mörk gegn Leikni. 

FH lagðist til baka og beitti skyndisóknum en sköpuðu sér nánast engin færi á meðan KR hélt boltanum innan liðs en ógnuðu lítið sem ekkert á síðasta þriðjungi og úr varð markalaust jafntefli. 

Hverjir stóðu upp úr?

Atli Gunnar Guðmundsson, markmaður FH, sýndi það í kvöld og einnig í undanförnum leikjum að hann er betri markmaður en Gunnar Nielsen sem er orðinn varamarkmaður. Atli varði það sem kom á markið og var traustur milli stanganna.  

Atli Sigurjónsson var hættulegasti maður KR. Þau færi sem heimamenn fengu komu flest öll í gegnum hann.

Hvað gekk illa?

Ég fullyrði það að þetta var leiðinlegasti leikur tímabilsins. Sóknarleikur beggja liða var nánast enginn. Það var allt mjög fyrirsjáanlegt og hættulegustu færin komu eftir föst leikatriði sem voru ekki mörg.

FH-ingar beittu skyndisóknum og þegar þeir fengu góðar stöður á vellinum var tekin skelfileg ákvörðun sem eyðilagði sóknina. 

Hvað gerist næst?

Næsta sunnudag fer KR upp á Skaga og mætir ÍA klukkan 17:00.

Á sama degi fer FH í Breiðholtið og mætir Leikni klukkan 14:00.

Sigurvin: Áverkar Vuk segja til um að við hefðum átt að fá vítaspyrnu

Sigurvin Ólafsson á hliðarlínunni ásamt Eiði SmáraVísir/Hulda Margrét

Sigurvin Ólafsson, aðstoðarþjálfari FH, var ósáttur með að hafa ekki fengið víti undir lok leiks.

„Það var vissulega leiðinlegt að áhorfendur sáu engin mörk í leiknum en þessi leikur var svolítil skák,“ sagði Sigurvin og hélt áfram.

„Allt sem við vildum loka á í leik KR heppnaðist og þeir sköpuðu sér fá færi. Við fengum tækifæri til að refsa þeim en útfærðum það illa og náðum því ekki að skora.“

FH beitti skyndisóknum og hefði Sigurvin viljað sjá sína menn gera betur á síðasta þriðjungi.

„Það er þekkt að þegar maður er búinn að liggja mikið til baka og fær loksins boltann hinu megin á vellinum verður maður spenntur og hefði ég viljað sjá mína menn vera aðeins yfirvegaðri á boltanum.“

Sigurvin vildi fá vítaspyrnu undir lok leiks þegar Kristinn Jónsson braut á Vuk Oskar Dimitrijevic.

„Mér fannst við átt að fá vítaspyrnu undir lok leiks. Ég hef séð áverkana á mínum leikmanni sem er verið að tjasla saman núna og augljóslega var sparkað í hann.“

„Það stór sér á drengnum en dómarinn missti af þessu. Dómarinn tóka þessa ákvörðun í skyndi og því verður ekki breytt,“ sagði Sigurvin að lokum.

 Myndir:

Barátta um boltannVísir/Hulda Margrét
Pálmi Rafn að tækla boltannVísir/Hulda Margrét
Sigurður Bjartur skallar boltannVísir/Hulda Margrét
Steven Lennon með boltann í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunniVísir/Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira