Körfubolti

Brynjar Þór hættur í körfubolta | „Hungrið ekki til staðar“

Atli Arason skrifar
Brynjar Þór Björnsson fagnar fyrir framan stuðningsmenn KR.
Brynjar Þór Björnsson fagnar fyrir framan stuðningsmenn KR. Vísir/Bára Dröfn

Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR í körfubolta, hefur ákveðið að segja þetta gott og ætlar að leggja skóna á hilluna.

„Ætli það sé ekki bara kominn tími á þetta. Það eru ákveðin kynslóðaskipti í Vesturbænum, við erum að yngjast ansi hratt og maður er orðinn gamli úlfurinn í klefanum. Svo finnur maður líka að sama hungrið er ekki til staðar og þá er bara eins gott að stíga til hliðar,“ sagði Brynjar Þór í viðtali við Stöð 2 í dag.

Brynjar hóf meistaraflokksferil sinn með KR árið 2004 og lýkur honum einnig sem leikmaður KR. Brynjar lék líka með Tindastól tímabilið 2018/19 ásamt einu ári í atvinnumennsku í Svíþjóð með Jämtland tímabilið 2011/12. Brynjar sneri þó alltaf aftur í Vesturbæinn.

„Þetta hefur verið forréttinda ferill ef svo má segja. Svo margir úrslitaleikir og góðar minningar héðan úr Vesturbænum og annars staðar,“ sagði Bynjar og bætti við að fólkið sem hann hefur kynnst í gegnum þau félög sem hann hefur spilað með vera það sem helst stendur upp úr, þó svo að titlarnir séu sætir.

Á 18 ára ferli sínum vann Brynjar átta Íslandsmeistaratitla og þrjá bikartitla, allt með KR-ingum.

„Þetta var mikill vinna og ákveðin heppni. Við komum saman ákveðinn kjarni sem hélst saman ansi lengi, frá 2006 til síðasta titils árið 2019. Kjarni sem vildi bara vinna og spila saman, var alveg sama um einstaklingsmarkmið. Það er svo fallegt þegar þetta gerist en þetta gerist ekki á mörgum stöðum og hvað þá átta sinnum,“ sagði Brynjar Þór Björnsson að lokum.

Innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að neðan en viðtalið við Brynjar í heild mun birtast á Vísi í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×