Jón Baldvin var hunsaður og lítilsvirtur frá upphafi. Sjá eftirfarandi:
Ég man það eins og það hefði gerst í gær. Þetta var um miðja nótt í janúar 1991. Niðamyrkur allt um kring. Og síminn hringdi. Kunnugleg rödd sagði: „Jón Baldvin, nú er stundin runnin upp. Þetta er neyðarkall frá Vilníus.“ Þessa rödd átti Vytautas Landsbergis, forseti Þjóðþingsins í Vilníus. Honum var mikið niðri fyrir. Ég heyrði hvert orð sem hann sagði: „Rússarnir hafa ákveðið að láta til skarar skríða“. Ég man, að það fór um mig hrollur við tilhugsunina - Rússarnir – til skarar skríða!
„Þú verður að koma strax – nærvera NATO-ráðherra skiptir máli. En enginn þeirra hefur svarað ákalli mínu“.
Þessir örlagaríku dagar í Litáen í janúar 1991, þegar farsímar og tölvur voru enn óþekkt fyrirbæri, heyrði ég ekkert í manninum mínum, frá því hann kvaddi mig með kossi um niðdimma nótt og þar til hann sneri til baka – heill á húfi – sjö dögum seinna.
Ég vissi, að einhverjir fréttamenn voru í för með honum. Strax fyrsta kvöldið var aðalfréttin í sjónvarpinu sú, að Jón Baldvin hefði tapað skjalatöskunni sinni á leiðinni. Það var gefið í skyn, að sennilega hefði JBH bara dottið í‘ða og þess vegna týnt töskunni sinni! Seinna var sú skýring fundin upp, að líklega hefði KGB stolið þessari umræddu tösku. Hvort tveggja staðleysustafir – tóm vitleysa. Alla vega er taskan enn á sínum stað.
Og svona eftir á að hyggja: Var þetta það sem þótti fréttnæmast við þessa örlagaríku ferð? Who Cared!
Og sagan endurtekur sig í dag.