Liverpool vann leikinn 9-0 og er þetta stærsti sigur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi en einnig jöfnun á stærsta sigri í sögu Úrvalsdeildarinnar en Leicester og Manchester United hafa einnig unnið 9-0 sigra frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð.
„Við skoruðum frábær mörk. Leikurinn róaðist eftir því sem á leið en við héldum samt áfram að skora. Þetta snerist allt um að halda áfram en ekki til að niðurlægja Bournemouth, við gætum ekki borið meiri virðingu fyrir þeim. Við ætluðum samt að setja þá undir pressu,“ sagði Klopp í viðtali eftir leikinn.
Var þetta fyrsti sigur Liverpool í deildinni eftir jafntefli í fyrstu tveimur umferðunum og tap gegn Manchester United í síðustu umferð.
„Við þurfum a.m.k. ekki að halda áfram að svara spurningum um hvers vegna við erum án sigurs. Þetta var mjög góður dagur hjá okkur en við megum ekki fara frammúr okkur.“
„Það er mikilvægt núna að koma þessum sigri í baksýnisspegillinn og halda áfram að spila fótbolta. Næsta miðvikudag verður allt öðruvísi leikur,“ sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, en næsti leikur liðsins er á miðvikudaginn gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.