Erlent

Hundrað metra há­hýsi felld og þúsundir fylgdust með

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hvítir dúkar voru settir yfir byggingar í næsta nágrenni.
Hvítir dúkar voru settir yfir byggingar í næsta nágrenni. EPA/Rajat Gupta

Gríðarlegur viðbúnaður var í úthverfi Nýju-Delí á Indlandi í dag þegar tvö háhýsi voru sprengd í loft upp. Hæstiréttur Indlands úrskurðaði að blokkirnar skyldu jafnaðar við jörðu þar sem þær uppfylltu ekki byggingareglugerðir.

Yfir fimmtán hundruð heimili á svæðinu voru rýmd vegna aðgerðanna en byggingarnar tvær, sem telja 32 og 29 hæðir og náðu rúmlega hundrað metra upp í loftið, eru þær hæstu sem rifnar hafa verið á Indlandi. Háhýsin rata á listann yfir fimmtíu hæstu byggingarnar sem jafnaðar hafa verið við jörðu viljandi.

Yfirvöld þurftu að nota 3,7 tonn af sprengiefni til þess að fella háhýsin og fylgdust gestir og gangandi með þegar þau féllu. Íbúar á svæðinu fengu að fara aftur heim til sín fimm klukkutímum eftir að aðgerðum var lokið.

Það er algengt í Indlandi að byggingar sem þessar séu settar upp án leyfis yfirvalda. Það er þó sjaldgæft að yfirvöld geri eitthvað í því og jafni þær við jörðu þar sem fólk í nágrenni bygginganna óttast að þeirra íbúðir eyðileggist. Þá vilja yfirvöld ekki menga íbúðarhverfi meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×