Erlent

„Frum­bygginn í holunni“ er látinn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Maðurinn var einn í skóginum í yfir 26 ár.
Maðurinn var einn í skóginum í yfir 26 ár. Brasilíska frumbyggjastofnunin

Maður sem hefur ávallt verið kallaður „frumbygginn í holunni“ og bjó í Amason-regnskóginum allt sitt líf er látinn. Hann var síðasti meðlimur ættbálks síns sem enn var á lífi.

Maðurinn var talinn hafa verið einn í skóginum í 26 ár en viðurnefni hans er dregið frá holum sem hann hefur grafið víðs vegar um skóginn og faldi sig oft í.

Flestir úr ættbálki hans voru líklegast drepnir á níunda áratug síðustu aldar þegar fólk með ólöglega búgarði myrti þá. Fólkið hafði unnið sér inn traust ættbálksins með því að gefa þeim sykur en næsti sykurskammtur var fullur af rottueitri.

Frumbygginn í holunni varð heimsfrægur, án hans vitneskju, árið 2018 þegar myndband af honum varð vinsælt á samfélagsmiðlum. Yfirvöld í Brasilíu höfðu þá fylgst með honum og birt myndbönd í tuttugu ár. Þar sást hann til dæmis höggva niður tré og veiða sér til matar.

Ekki var gerð tilraun til þess að reyna að ræða við manninn en ljóst var að hann myndi ekki treysta neinum eftir að hafa séð alla ættingja sína deyja mörgum árum áður. Yfirvöld reyndu þó að einfalda líf hans með því að skilja eftir sveðjur, axir og fræ á víð og dreif um svæðið sem bjó á.

„Hann var sá síðasti úr ættbálk sínum, þannig þetta er enn einn útdauði ættbálkurinn,“ hefur The Guardian eftir Sarah Shanker, sjálfboðaliða hjá samtökunum Survival International. Talið er að um þrjátíu einangraðir ættbálkar búi enn í Amason-regnskóginum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×