Samkvæmt nýbirtum tölum um eignir verðbréfasjóða hjá Seðlabanka Íslands reyndust innlausnir fjárfesta meiri en sala á nýjum hlutdeildarskírteinum í júlímánuði hvort sem litið er til hlutabréfasjóða, blandaðra sjóða eða skuldabréfasjóða. Samanlagt nam nettó útflæðið tæplega 5,7 milljörðum króna og er þetta þriðji mánuðurinn í röð sem innlausnir fjárfesta eru meiri en sala á nýjum skírteinum í öllum sjóðunum þremur.
Þar munar mestu um innlausnir í skuldabréfasjóðum en frá því í maí hafa fjárfestar selt í þeim sjóðum fyrir um 14 milljarða króna. Áður hafði ekki verið nettó útflæði í þess konar sjóðum frá því um haustið 2019 en aðalvísitala skuldabréfa í Kauphöllinni hefur lækkað um tæplega eitt prósent frá áramótum.
Mikill órói og verðlækkanir hefur einkennt alþjóðlega verðbréfamarkaði eftir að stríðsátökin hófust í Úkraínu fyrr á árinu. Hlutabréfamarkaðir í Evrópu og í Bandaríkjunum hafa þannig átt erfitt uppdráttar á síðustu mánuðum vegna ótta fjárfesta um versnandi hagvaxtarhorfur samtímis því að helstu seðlabankar heimsins þurfa að hækka vexti hraðar og meira en áður var búist við til að stemma stigu við ört hækkandi verðbólgu.
Eftir að hafa fallið skarpt á síðustu mánuðum hækkaði gengi íslensku félaganna í Kauphöllinni talsvert í júlí, rétt eins og var reyndin á mörkuðum í öðrum löndum í kringum okkar, og var Úrvalsvísitalan meðal annars upp um tæplega átta prósent. Það varð þess valdandi að eignir bæði hlutabréfasjóða og blandaðra sjóða, sem fjárfesta bæði í skuldabréfum og hlutabréfum, hækkuðu í fyrsta sinn frá því í marsmánuði á þessu ári.
Eignir slíkra verðbréfasjóða hafa engu að síður dregist saman um liðlega 28 milljarða – úr 241 milljarði í 213 milljarða – á fyrstu sjö mánuðum ársins, bæði vegna verðlækkana á mörkuðum og eins innlausna fjárfesta. Frá áramótum hefur Úrvalsvísitalan lækkað um rúmlega átján prósent.
Þetta eru mikil umskipti frá því sem var á árunum 2020 og 2021 þegar stöðugt innflæði var í hlutabréfasjóði og blandaða sjóði samtímis lækkandi vaxtastigi og auknum áhuga almennings á hlutabréfafjárfestingum. Samanlagðar fjárfestingar í slíka sjóði voru þannig um 58 milljarðar í fyrra og fjórfölduðust frá árinu 2020.
Eign íslenskra heimila í hlutabréfasjóðum og blönduðum sjóðum hefur minnkað um 17 milljarða frá áramótum og nemur nú tæplega 95 milljörðum. Það er um 45 prósent af heildareignum þess konar sjóða og hefur það hlutfall haldist nokkuð óbreytt á tímabilinu.
Í næsta mánuði, eða þann 19. september, mun íslenski hlutabréfamarkaðurinn færast að fullu upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu FTSE Russell. Það mun gerast þremur jafn stórum skrefum á tímabilinu frá september og til marsmánaðar á næsta ári.
Íslenski markaðurinn fær vigt sem nemur tæplega 0,14 prósentum af vísitölunni sem dreifist mismunandi eftir stærð félaganna í Kauphöllinni. Sérfræðingar á fjármálamarkaði telja að miðað við þá vigt megi áætla að innflæðið frá vísitölusjóðum sem fjárfesta í samræmi við samsetningu vísitölunnar geti verið samanlagt í kringum 50 til 60 milljarðar króna.