Fjárfestingafélag Reynis, InfoCapital, lagði þannig til 1.210 milljónir króna þegar Gavia Invest kláraði hlutafjáraukningu upp á samtals um 1.500 milljónir króna í lok júlímánaðar í tengslum við fjárfestingu félagsins í Sýn. Eignarhlutur Reynis í Gavia Invest eftir þá hlutafjáraukningu nemur því rúmlega 80 prósentum.
Hið nýstofnaða fjárfestingafélag festi kaup á samtals yfir 16 prósenta hlut í Sýn síðustu vikuna í júlí. Þar á meðal keypti Gavia Invest um 12,7 prósenta eignarhlut Heiðars Guðjónssonar, sem samhliða sölunni tilkynnti að hann myndi hætta sem forstjóri, fyrir um 2,2 milljarða króna á genginu 64 krónur á hlut. Arion banki var ráðgjafi fjárfestahópsins og kom meðal annars að fjármögnun á hluta af kaupverðinu í gegnum framvirka samninga.
Félagið E&S 101, sem er meðal annars stór hluthafi í fasteignafélaginu Kaldalón, fer með tæplega 17 prósenta hlut í Gavia Invest eftir að skráð sig fyrir 250 milljónum króna við hlutafjáraukninguna. Það félag er í eigu Jonathan Rubini, eins ríkasta manns Alaska og meðal stærstu eigenda Keahótela, Mark Kroloff hjá First Alaskan Capital Partners, og Andra Gunnarssonar, lögmanns og fjárfestis.
Þá fer Jón Skaftason, sem er í forsvari fyrir Gavia Invest og var kjörinn inn sem nýr stjórnarmaður í Sýn fyrr í dag, með nærri þriggja prósenta hlut í gegnum félagið sitt Pordoi en það lagði til um 40 milljónir þegar hlutafé fjárfestingafélagsins var hækkað í lok síðasta mánaðar.
Í tilkynningu sem Gavia Invest skilaði inn til fyrirtækjaskráar í lok júlí, þar sem meðal annars voru gerðar breytingar á samþykktum félagsins, kemur fram að stjórn sé heimilt að hækka hlutafé þess um allt að 375 milljónir hluta að nafnvirði og gildir sú heimild til 1. september árið 2024. Sú hækkunarheimild er til að mæta skuldbindingum félagsins samkvæmt kaupréttarsamningi sem það gerði 21. júlí síðastliðinn. Kaupréttargengið er sagt ráðast af ákvæði samningsins og hluthafar falla frá forgangsrétti ef til þeirrar hlutafjárhækkunar kemur.
Jón Skaftason, sem var um árabil framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 miðlum, sagði í samtali við Innherja skömmu eftir kaup fjárfestahópsins að hann hefði „fylgst lengi“ með Sýn. „Við ætlum okkur að hafa virka aðkomu að rekstri félagsins og munum beita okkur fyrir aukinni verðmætasköpun í þágu allra hluthafa Sýnar.“
Þá lét Reynir, sem er í dag meðal annars stjórnarformaður Saltpay, hafa það eftir sér í fjölmiðlum að hann undraðist hvers vegna Sýn væri ekki metið hærra og vísaði meðal annars til innviðaeigna. Reynir seldi meirihluta sinn í Creditinfo Group í mars í fyrra til bandaríska sjóðsins Levine Leichtman Capital Partners. Samstæðan var verðmetin á bilinu 20 til 30 milljarða króna í viðskiptunum. Í kjölfarið hefur fjárfestingafélag hans, InfoCapital, komið að stórum kaupum í ýmsum skráðum félögum og er í dag á meðal stærstu hluthafa Icelandair Group og Kviku banka.
Hilmar Þór Kristinsson, annar eigandi eignarhaldsfélagsins Fasta sem keypti tæplega átta prósenta hlut í Sýn í byrjun ágúst, sagði í viðtali við Innherja fyrr í þessum mánuði deila þeirri skoðun með Reyni að félagið væri undirverðlagt á markaði.
„Ég skil ekki af hverju gengi félagsins er ekki hærra en raun ber vitni. Ég sat í stjórn Sýnar, þekki félagið vel og tel mig hafa séð hversu mikið það á inni,“ segir Hilmar Þór sem sat í stjórn Sýnar í eitt ár, frá mars 2020 til mars 2021.
Strax eftir kaup Gavia Invest fór félagið fram á hluthafafund þar sem ný stjórn yrði kjörin og beitt yrði margfeldiskosningu. Allir núverandi stjórnarmenn Sýnar, að undanskildum Hjörleifi Pálssyni, sem var formaður stjórnar, buðu sig fram auk þess sem Jón, Reynir og Hilmar Þór sóttust einnig eftir kjöri. Niðurstaða hluthafafundarins, sem lauk rétt fyrir hádegi og var mætt á hann fyrir hönd tæplega 85 prósenta hluthafa, var að allir núverandi stjórnarmenn sem sóttust eftir endurnýjuðu umboði hlutu brautargengi auk þess sem Jón var kjörin nýr inn í stjórn félagsins.
Í kjölfar stjórnarkjörsins var ákveðið að Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, sem hefur verið í stjórn Sýnar frá árinu 2020, myndi taka við stjórnarformennsku. Fyrsta verkefni stjórnarinnar verður að leita að nýjum forstjóra félagsins en Heiðar mun sinna því starfi þangað til eftirmaður hans verður ráðinn.
Í uppgjöri sem Sýn skilaði eftir lokun markaða í gær kom fram að tekjur félagsins hefðu aukist um 720 milljónir á öðrum ársfjórðungi og numið samtals rúmlega sex milljörðum króna. EBITDA-hagnaður félagsins jókst um liðlega 120 milljónir og var um 1.607 milljónir króna á fjórðungnum.
Hlutabréfaverð Sýnar lækkaði um tæplega 3,7 prósent í 34 milljóna króna veltu í viðskiptum í Kauphöllinni í dag og stendur nú í 66,5 krónum á hlut. Markaðsvirði félagsins er nú um 17,6 milljarðar en gengi bréfa Sýnar hefur hækkað um 55 prósent á síðustu tólf mánuðum.
Fyrir utan Gavia Invest eru aðrir helstu hluthafar Sýnar meðal annars lífeyrissjóðurinn Gildi, sem hefur bætt lítillega við eignarhlut sinn síðustu vikur, með rúmlega 13,2 prósenta hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og sjóðir í stýringu Akta. Samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóða í Sýn er rúmlega 40 prósent.
Innherji er undir hatti Sýnar hf.