Handbolti

Olís-spá karla 2022-23: Ekki meistarakandítatar í fyrsta sinn á öldinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekkert lið hefur unnið fleiri titla í íslenskum karlahandbolta á þessari öld en Haukar. En þeir hafa oft verið sterkari en um þessar mundir.
Ekkert lið hefur unnið fleiri titla í íslenskum karlahandbolta á þessari öld en Haukar. En þeir hafa oft verið sterkari en um þessar mundir. vísir/hulda margrét

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Haukum 5. sæti Olís-deildar karla í vetur.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir fyrir um gengi liðanna í Olís-deild karla en keppni í deildinni hefst með fjórum leikjum fimmtudaginn 8. september.

Íþróttadeild spáir Haukum 5. sæti Olís-deildar karla í vetur og Hafnfirðingar hrapi niður um þrjú sæti frá síðasta tímabili.

Það hefur ef til vill gleymst að Haukar voru aðeins árangri í innbyrðis viðureignum gegn Val frá því að verða deildarmeistarar á síðasta tímabili. Í átta liða úrslitunum slógu Haukar KA naumlega úr leik en áttu ekki svör við ÍBV í undanúrslitunum. Aron Kristjánsson hætti sem þjálfari Hauka eftir tímabilið og við tók Rúnar Sigtryggsson sem lék með Haukum á árum áður við góðan orðstír. 

Rúnars bíður erfitt verkefni enda er þetta í fyrsta sinn á þessari öld sem Haukar fara ekki inn í tímabil sem meistarakandítatar. Undanfarin ár hafa Haukar verið með gott lið, mjög gott, en ekki nógu gott til að verða Íslandsmeistarar. Liðið sem Rúnar er með í höndunum núna er hins vegar talsvert veikara en á síðasta tímabili. 

Darri Aronsson er farinn, Aron Rafn Eðvarðsson verður væntanlega ekkert með í vetur sökum höfuðmeiðsla og vegna meiðsla línumanna liðsins þurfti Heimir Óli Heimisson að taka skóna af hillunni. Þá hafa Haukar ekki fengið þann liðsstyrk sem þeir hefðu þurft. Haukar sóttu þó Matas Pranckevicius og vonandi reynist hann þeim jafn vel og annar litáískur markvörður, Giedrius Morkunas, gerði fyrir nokkrum árum.

Það nærtækasta í stöðunni væri að treysta meira á yngri leikmenn og færa Guðmundi Braga Ástþórssyni lyklavöldin að liðinu. Sá hængur er á að lið Hauka er frekar aldrað og Guðmundur Bragi verður líklega farinn út í atvinnumennsku áður en langt um líður.

Þrátt fyrir allt eru Haukar enn með sterkt og reynt lið en meistaradraumar eru óraunsæir á þessari stundu og stuðningsmenn liðsins þurfa að venjast nýjum veruleika, allavega um stund.

Gengi Hauka undanfarinn áratug

  • 2021-22: 2. sæti+undanúrslit
  • 2020-21: Deildarmeistari+úrslit
  • 2019-20: 4. sæti
  • 2018-19: Deildarmeistari+úrslit
  • 2017-18: 5. sæti+undanúrslit
  • 2016-17: 3. sæti+átta liða úrslit
  • 2015-16: Deildarmeistari+Íslandmeistari
  • 2014-15: 5. sæti+Íslandsmeistari
  • 2013-14: Deildarmeistari+úrslit+bikarmeistari
  • 2012-13: Deildarmeistari+úrslit

Lykilmaðurinn

Guðmundur Bragi Ástþórsson er á radarnum hjá erlendum félögum.vísir/hulda margrét

Undanfarin tvö tímabil hefur Guðmundur Bragi byrjað veturinn á láni hjá Aftureldingu áður en Haukar kölluðu hann til baka. Hann var prímusmótorinn í sóknarleik Mosfellinga en hlutverkið hjá Haukum var öllu minna þótt hann hafi vissulega fengið fleiri tækifæri á síðasta tímabili en því þarsíðasta. Guðmundur Bragi er gríðarlega hæfileikaríkur og fær í flestan sóknarsjó. Hann getur skotið, brotist í gegn og fundið samherja sína. Ætti ef allt er eðlilegt að vera meðal bestu leikmanna Olís-deildarinnar í vetur og vekja enn meiri áhuga erlendra félaga.

Félagaskiptamarkaðurinn

Komnir:

  • Ágúst Ingi Óskarsson frá Neistanum (Færeyjum)
  • Matas Pranckevicius frá Vilnius VHS Sciesa (Litáen)

Farnir:

  • Darri Aronsson til Ivry (Frakklandi)
  • Halldór Ingi Jónasson til Víkings

Markaðseinkunn (A-C): C

Fortíðarhetja sem gæti nýst í vetur

Eftir brotthvarf Darra mun mikið mæða á Adam Hauki Baumruk í vetur og Haukum veitir ekki af fleirum sem geta spilað sem vinstri skytta. Einhverjum eins og Sigurbergi Sveinssyni sem var aðalmaðurinn í sóknarleik Hauka og varð meðal annars Íslandsmeistari með liðinu þrjú ár í röð (2008-10). Sóknarhæfileikar hans myndu koma í góðar þarfir hjá Haukum í vetur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×