Erlent

Í tíu ára fang­elsi fyrir að ráðast á lög­reglu­mann í á­rásinni á þing­húsið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hér má sjá Webster veifa flaggstönginni sem hann barði að lögreglumanninum áður en hann stökk yfir girðinguna og réðist á hann.
Hér má sjá Webster veifa flaggstönginni sem hann barði að lögreglumanninum áður en hann stökk yfir girðinguna og réðist á hann. AP/Metropolitan Police Department

Fyrrverandi lögreglumaður frá New York borg hefur verið dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að hafa ráðist á lögreglumann í óeirðunum og áhlaupinu á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021. Maðurinn hélt því fram við kviðdóm að hann hafi gripið til ofbeldisins í sjálfsvörn.

Um er að ræða þyngsta dóminn sem fallið hefur vegna áhlaupsins á bandaríska þinghúsið enn sem komið er. Hinn 56 ára gamli Thomas Webster náðist á myndbönd í áhlaupinu þar sem hann sást meðal annars sveifla járnstöng að lögreglumanninum Noah Rathbun áður en hann fór yfir grindverkið sem lögregla hafði komið upp fyrir framan þinghúsið. 

Þegar yfir var komið felldi Webster Rathbun og notaði hökubandið á einkennishúfu hans til að taka hann kyrkingartaki. Webster var sakfelldur fyrir alla sex ákæruliði, þar af fimm sem flokkast til stórfelldra glæpa, í maí en dómur var kveðinn upp í gær. 

Webster grét þegar dómur var kveðinn upp og baðst vægðar.AP Photo/Jose Luis Magana

Dómarinn sagði við Webster í gær að það hafi ekki verið fyrr en hann mætti á staðinn sem allt fór úr böndunum. Þá valdi myndbandið honum uppnámi, enn þann dag í dag.

„Enginn ýtti þér áfram, þú hljópst,“ sagði dómarinn og bætti við að framburður Websters um hvað hafi gerst væri algjör mótsögn við það sem sæist á myndbandinu: „Þú bjóst til einhverja allt aðra atburðarrás.“

Webster var grátklökkur þegar dómur var kveðinn upp yfir honum og hann bað dómarann að sýna sér miskunn og sagðist hafa mistekist að „vera nógu hugrakkur til að halda aftur af“ sér þennan dag.

Rathbun var viðstaddur við uppkvaðningu dómsins í gær, íklæddur lögreglubúningnum sínum. Webster bað Rathbun afsökunar fyrir það sem hann hafði gert. 

Saksóknarar lögðu áherslu á það í málflutningi sínum að Webster hafi tekið skotvopn með sér til Washington og að hann hafi verið íklæddur skotvarnarklæðnaði, sem hann hafði fengið í gegn um starf sitt sem lögreglumaður í New York. 


Tengdar fréttir

Stefna nánum banda­mönnum Trump vegna á­rásarinnar á þing­húsið

Þingnefnd sem rannsakar árás stuðningsmanna Donald Trump á bandaríska þinghúsið í janúar hefur stefnt fjórum ráðgjöfum og embættismönnum hans til að bera vitni og afhenda gögn. Á meðal þeirra sem er stefnt er Mark Meadows, fyrrverandi skrifstofustjóri Hvíta hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×