Innherji

Telja ólíklegt að „svört“ verðbólguspá Seðlabankans muni ganga eftir

Hörður Ægisson skrifar
Rannveig Sigurðardóttir, vara seðlabankastjóri, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Í nýjustu þjóðhagsspá bankans var því spáð að verðbólgan myndi toppa í tæplega 11 prósentum undir lok ársins.
Rannveig Sigurðardóttir, vara seðlabankastjóri, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Í nýjustu þjóðhagsspá bankans var því spáð að verðbólgan myndi toppa í tæplega 11 prósentum undir lok ársins. vísir/vilhelm

Nýjustu hagtölur sem sýna að verðbólgan er tekin að hjaðna og hagvöxtur reyndist minni á árinu en Seðlabankinn var áður búinn að spá gefur væntingar um að peningastefnunefnd muni ekki fara í aðra skarpa vaxtahækkun. Ólíklegt er að „svört“ spá Seðlabankans um nærri 11 prósenta verðbólgu í í lok árs muni ganga eftir, að mati sérfræðinga á fjármálamarkaði.

Sú mikla hækkun sem varð á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa, einkum á styttri endanum, eftir að Seðlabankinn kynnti nýja verðbólgu- og hagvaxtarspá sína í liðinni viku samhliða ákvörðun sinni um að hækka vexti um 75 punkta – úr 4,75 prósentum í 5,5 prósent – hefur að stórum hluta gengið til baka síðustu daga. Þá hefur verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði – munurinn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisbréfa – sömuleiðis farið lækkandi.

Örvar Snær Óskarsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, bendir á að það séu búnar að vera miklar sviptingar á skuldabréfamarkaði síðustu vikur.

„Það var kominn ákveðin bjartsýni í markaðinn um að verðbólga væri að nálgast toppinn og ýmsar vísbendingar, sér í lagi á fasteignamarkaðinum, sem studdu það. Vaxtahækkun Seðlabankans var í takt við væntingar en verðbólgu- og hagvaxtarspá bankans voru hins vegar yfir því sem aðrir greinendur voru að reikna með,“ segir Örvar, sem stýrir skuldabréfasjóðum og blönduðum sjóðum hjá Kviku, í samtali við Innherja og bætir við:

„Það má þess vegna segja að nýjustu tölur Hagstofunnar í vikunni, fyrst vísitala neysluverðs sem var vel undir spá Seðlabankans og svo hagvöxtur á öðrum fjórðungi sem var minni en bankinn hafði spáð nokkrum dögum fyrr hafi fyllt markaðinn bjartsýni á ný og í raun ógilt spár hans. Ef við fáum aðra hóflega breytingu á vísitölu neysluverðs í september þá tel ég að Seðlabankinn muni fara varlega í næstu vaxtaákvörðun,“ segir Örvar.

Þróun ávöxtunarkröfunnar á óverðtryggðum ríkisbréfum hefur ekki aðeins áhrif á þau lánskjör sem ríkissjóði bjóðast á innlendum skuldabréfamarkaði heldur sömuleiðis á fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila. Bankarnir fjármagna til að mynda fasteignalán til heimila með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og viðskipti með þau bréf fylgja þróun á ríkisbréfamarkaðnum.

Verðbólgan hækkaði um tæplega 0,3 prósent í ágústmánuði – greinendur höfðu hins vegar spáð því að hún myndi hækka um 0,4 til 0,5 prósent – og við það lækkaði árstaktur verðbólgunnar úr 9,9 prósent í 9,7 prósent. Var það í fyrsta sinn sem tólf mánaða verðbólgan lækkar á milli mánaðar frá því um sumarið 2021 en það skýrist aðallega af vísbendingum um að íbúðamarkaðurinn, sem hefur einkum drifið áfram verðbólguna, sé farinn að kólna og í vændum séu talsvert minni verðhækkanir á þeim markaði.

Ef við fáum aðra hóflega breytingu á vísitölu neysluverðs í september þá tel ég að Seðlabankinn muni fara varlega í næstu vaxtaákvörðun.

Þá sýndu nýjar tölur Hafstofunnar, sem birtust í fyrradag, að hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi mældist 6,1 prósent en þann vöxt mátti einkum rekja til mikillar einkaneyslu og verulegri fjölgun ferðamanna á milli ára. Greining Íslandsbanka benti á að vöxturinn hafi verið í „svipuðum takti“ og síðustu ársfjórðunga og telur að horfur séu á um fimm prósenta hagvexti í ár en í nýjustu þjóðhagsspá Seðlabankans var því spá að hann yrði nálægt sex prósentum.

Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, tekur í sama streng og Örvar um að Seðlabankinn hafi verið nokkuð svartsýnni á verðbólguþróunina heldur en nýjustu tölur Hagstofunnar gefa til kynna. „Það er þess vegna ólíklegt að verðbólguspáin sem Seðlabankinn birti fyrir þennan ársfjórðung muni raungerast,“ að mati Ingólfs Snorra.

Þrátt fyrir að teikn séu á lofti um verðbólgan sé tekin að hjaðna eftir skarpar vaxtahækkanir Seðlabankans og hert lánþegaskilyrði til að kæla fasteignamarkaðinn þá eru enn óvissuþættir til staðar sem gætu snúið við þeirri þróun, að sögn viðmælenda Innherja á markaði.

Örvar bendir á að í vændum séu kjarasamningaviðræður auk þess sem orkukreppan í Evrópu muni líklega smitast inn í innfluttu verðbólguna. „Það er þess vegna fullsnemmt að fullyrða að toppnum sé náð enda þótt það sé margt sem bendir til þess.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við Innherja eftir vaxtaákvörðunarfund bankans í liðinni viku að vaxtahækkanir bankans ásamt öðrum aðgerðum væru gerðar í því skyni að gera „kjaraviðræðurnar auðveldari með því að reyna ná niður verðbólgunni svo það verði eitthvað um að semja þegar sest verður við samningaborðið. Ég hef orðið áhyggjur af því að sá árangur sem hefur náðst á undanförnum árum að viðhalda verðstöðugleika hafi búið til þá hugmynd að það sé sjálfsagt að verðbólga verði lág óháð gangi í efnahagslífinu hverju sinni – það þurfi aldrei að hækka vexti eða grípa til nokkurra aðhaldsgerða til að tryggja verðstöðugleika.“

Þá benti hann á að þrátt fyrir að hluti verðbólgunnar væri vegna verðhækkana á erlendum framleiðsluþáttum þá mætti ekki gleyma því að staðan á fasteignamarkaði, þar sem verð íbúða hefur hækkað um 25,5 prósent síðustu tólf mánuði, sé líka birtingarmynd mikilla launahækkana. „Venjulegt íslenskt heimili eyðir um fimmtungi af sínum ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað og það er bein fylgni milli hækkunar launa og verðlags á fasteignamarkaði,“ að sögn Ásgeir.

Jafnvel þótt húsnæðisliðurinn sé undanskilinn þá er árstaktur verðbólgunna um 7,1 prósent og sé litið til svonefndrar undirliggjandi verðbólgu þá er hún um 6,5 prósent, samkvæmt síðustu mælingu Seðlabankans.

Næsti vaxtaákvörðunarfundur Peningastefnunefndar fer fram 5. október næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×