Erlent

Hótaði að fljúga stolinni flug­vél á Wal­mart

Árni Sæberg skrifar
Sjá má glitta í flugvélina, sem er af gerðinni Beechcraft King Air C90A, á miðri mynd.
Sjá má glitta í flugvélina, sem er af gerðinni Beechcraft King Air C90A, á miðri mynd. Rachel McWilliams/AP

Verslun Walmart í Tupelo í Mississippi í Bandaríkjunum var rýmd í morgun eftir að flugmaður stolinnar flugvélar hótaði að fljúga vélinni á verslunina. 

Flugvélin er enn á lofti og hefur verið það í um fimm klukkustundir. Upphaflega hringsólaði flugmaðurinn yfir borginni Tupelo en er nú kominn frá borginni og sást síðast við Somerville í Tennessee. Ferðir flugvélarinnar eru raktar á vefsíðunni Flightaware.

Lögreglan í Tupelo tilkynnti á Facebook að hún væri í sambandi við flugmanninn og að fólk væri beðið um að forðast svæðið sem hann flýgur yfir enda sé auðvelt að valda miklum skaða með flugvél.

Verslun verslunarrisans Walmart hafi verið rýmd sem og smærri búð í grenndinni.

Samkvæmt heimildarmönnum AP rannsakar lögreglan nú hvort að flugmaðurinn sé starfsmaður flugvallar í Tupelo og að starfsmenn fjölmargra ríkisstofnanna komi að rannsókn málsins.

Flugvélin er af gerðinni Beechcraft King Air C90A og tekur sjö manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×