Í fréttatilkynningu frá Veitum segir að fyrirtækið hafi fyrst orðið vart við þrýstingslækkun í kerfinu klukkan 21:43 og vinna hafi þá hafist við að staðsetja lekann.
Þá var mannskapur kallaður út til að bregðast við lekanum eftir að hann hafði verið staðsettur. „Fyrsta verk útkallshópsins var að loka fyrir vatnið en fara þurfti í þrjú lokahús til að skrúfa fyrir flæðið. Þá hafði töluvert af vatni flætt með tilheyrandi tjóni,“ segir í tilkynningu.
Hugur Veitna hjá íbúum
Í tilkynningu segir að ljóst sé að íbúar á svæðinu hafi orðið fyrir tjóni vegna lekans og að hugur Veitna sé hjá því fólki. Íbúar sem hafa rætt við fréttastofu í dag segja að mikið tjón hafi orðið en að mesta mildi sé að enginn búi á jarðhæð hússins. Þar sé íbúar með geymslur og þvottahús.
Íbúar eru hvattir til að hafa samband við sitt tryggingarfélag en orsök lekans liggja ekki fyrir. Því er ekki ljóst hvar bótaábyrgð liggur að svo stöddu.
Ekki tekin í notkun fyrr en öryggi er tryggt
Í tilkynningunni segir að lögnin hafi nú verið tekin úr rekstri og ítarleg greiningarvinna og viðgerðir hefjist strax á mánudag.
„Veitur munu fara í gagngera greiningu á lögninni og ekki setja hana í rekstur á ný fyrr en búið er komast að orsökum og tryggja öryggi hennar,“ segir í tilkynningunni.
Þá muni lokun lagnarinnar ekki hafa áhrif á borgarbúa enda sé lögnin ein tveggja sem sjái vestari hluta Reykjavíkur fyrir köldu vatni.
Líkt og greint var frá í morgun stóðu engar framkvæmdir eða viðgerðir yfir þegar lögnin fór í sundur og því er engin augljós skýring á lekanum.