Blikar eru með ellefu stiga forskot á toppi deildarinnar. Tvær umferðir eru eftir þar til deildinni verður tvískipt.
Breiðablik var miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Frederick Schram hélt Val inni í leiknum með góðum markvörslum. Hann kom hins vegar engum vörnum við þegar Ísak Snær Þorvaldsson skoraði eina mark leiksins á 63. mínútu. Þetta var þrettánda mark Mosfellingsins í Bestu deildinni í sumar. Aðeins KA-maðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson hefur skorað meira, eða sautján mörk.
Með sigrinum í gær bætti Breiðablik stigamet félagsins í efstu deild. Blikar eru komnir með 48 stig, einu stigi meira en þeir fengu á síðasta tímabili. Stigametið í tólf liða deild er 52 stig sem KR 2013 og Stjarnan 2014 eiga.
Valsmenn eru aftur á móti í 4. sæti deildarinnar. Eftir 6-1 sigurinn á Stjörnunni í 17. umferð hefur Valur aðeins fengið tvö stig í síðustu þremur leikjum.
Mörkin og allt það helsta úr leiknum á Kópavogsvelli í gær má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.