Dicaprio og Hadid hafa þekkst í þó nokkur ár en sáust nýlega saman á næturlífinu í New York. Samkvæmt heimildum tímaritsins In Touch hafa þau verið að stinga saman nefjum síðan leikarinn varð einhleypur nú í sumar.
„Gigi er akkúrat hans týpa; stórglæsileg og kynþokkafull en lætur ekki mikið fyrir sér fara og lætur stundum eins og hún sé ein af strákunum,“ er haft eftir heimildarmanni.
Það er þó eitt sem virðist ekki alveg falla undir týpu Dicaprios og það er aldurinn. Samkvæmt grafi yfir ástarsambönd Dicaprios, sem gengið hefur um á veraldarvefnum, er Hadid aðeins of gömul fyrir leikarann.
Hadid er tuttugu og sjö ára gömul og væri hún því elsta kona sem Dicaprio hefur nokkurn tímann átt í ástarsambandi við, ef orðrómurinn reynist sannur. Sjálfur er Dicaprio fjörutíu og sjö ára gamall.
Áður átti Hadid í ástarsambandi við One Direction-söngvarann Zayn Malik og eiga þau saman dótturina Khai, tveggja ára.
Hollywood-spekúlantinn Birta Líf Ólafsdóttir fór yfir þetta mál ásamt fleiru í Brennslutei vikunnar á FM957 í morgun. Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni hér að neðan.