Fótbolti

Veit ekki hvaða stöðu eigin leikmaður spilar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ross Barkley vonast til að öðlast nýtt fótboltalíf í Frakklandi.
Ross Barkley vonast til að öðlast nýtt fótboltalíf í Frakklandi. getty/MB Media

Lucien Favre, knattspyrnustjóri Nice, virtist ekki vita hvaða stöðu Ross Barkley, nýjasti leikmaður franska liðsins, spilar er hann var spurður út í það á blaðamannafundi.

Barkley gekk í raðir Nice eftir að samningi hans við Chelsea var rift. Hann var fjögur ár í herbúðum Chelsea og lék hundrað leiki fyrir liðið í öllum keppnum.

Hinn 29 ára Barkley vonast til að koma ferlinum aftur af stað hjá Nice en það gæti reynst erfitt fyrst Favre virðist ekki vita mikið um hann eins og kom í ljós á blaðamannafundi í fyrradag. Stjórinn var þá spurður hvort hann liti frekar á Barkley sem sexu eða áttu. Blaðamaðurinn vísaði þar í stöður á miðjunni, hvort Barkley spilaði frekar framarlega eða aftarlega á henni.

„Mér er sagt að hann sé meiri átta,“ sagði Favre nokkuð forviða. Hann þurfti þó ekki að hafa áhyggjur af því hvar hann ætti að nota Barkley í leiknum gegn Köln í Sambandsdeild Evrópu í gær því enski miðjumaðurinn var fjarri góðu gamni.

Barkley er einn nokkurra leikmanna úr ensku úrvalsdeildinni sem Nice hefur fengið í sumar. Áður voru Kasper Schmeichel, Aaron Ramsey, Joe Bryan og Nicolas Pépé komnir til liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×