Í frétt á vef HSÍ segir að ófá bros hafi verið kölluð fram við það að fara yfir myndefni til að velja í auglýsinguna vegna stórafmælisins, nú þegar öld er liðin frá því að Valdimar Sveinbjörnsson kom með handboltann til landsins eftir nám í Danmörku.
Af mörgum ógleymanlegum augnablikum megi nefna þegar kvennalandsliðið hafi fyrst liða unnið titil í hópíþróttum, með því að verða Norðurlandameistari árið 1964, ólympíusilfrið sem karlalandsliðið vann árið 2008 og heimsmeistaramót karla sem haldið var á Íslandi árið 1995.
Í auglýsingunni segir að á hundrað árum hafi handboltinn orðið að sameiningartákni fyrir íslensku þjóðina, sáð fræjum hjá ungmennum og uppskorið risastóra sigra. Auglýsinguna má sjá hér að neðan.
„Við erum þjóð sem gefst aldrei upp. Þjóð sem á alveg sérstaklega margar þjóðhetjur. Því þrátt fyrir höfðatölu verðum við alltaf stórasta land í heimi,“ segir í auglýsingunni sem þar með vísar í ódauðleg ummæli Dorritar Moussaieff, fyrrverandi forsetafrúr, eftir að karlalandsliðið tryggði sér verðlaun á Ólympíuleikunum í Peking 2008.