Fótbolti

Bæði Bayern og Dortmund tapa stigum í toppbaráttunni í Þýskalandi

Atli Arason skrifar
Jamal Musiala skoraði eitt mark í dag og Bayern heldur toppsætinu, a.m.k. til morgundags.
Jamal Musiala skoraði eitt mark í dag og Bayern heldur toppsætinu, a.m.k. til morgundags. EPA-EFE/SASCHA STEINBACH

Bayern München gerði 2-2 jafntefli á heimavelli við Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni í dag en Borussia Dortmund tapaði 3-0 á útivelli gegn RB Leipzig á sama tíma.

Mathys Tel kom Bayern yfir á 36. mínútu áður en Chris Fuhrich jafnaði fyrir Stuttgart skömmu eftir leikhlé. Jamal Musiala kom Bayern svo aftur yfir þremur mínútum eftir jöfnunarmark gestanna en Serhou Guirassy, leikmaður Stuttgart, jafnaði leikinn úr vítaspyrnu á 92. mínútu og þar við sat.

Leipzig átti ekki í neinum vandræðum með Dortmund á heimavelli en Leipzig vann þriggja marka sigur þökk sé mörkum Amadou Haidara, Dominik Szoboszlai og Willi Orban.

Í öðrum leikjum dagsins gerðu Hertha Berlin og Bayer Leverkusen 2-2 jafntefli, Wolfsburg vann útisigur á Eintracht Frankfurt, 0-1, á meðan Hoffenheim vann 4-1 sigur á Mainz.

Bayern München er eftir sem áður á topp deildarinnar með 12 stig en Hoffenheim, Dortmund og Freiburg eru öll einnig með 12 stig í 2.-4. sæti. Freiburg getur náð toppsætinu með sigri á Borussia Mönchengladbach á morgun en hin þrjú liðin hafa öll leikið sex leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×