Fótbolti

Mögnuð tölfræði Neymar í upphafi móts vekur athygli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Neymar.
Neymar. vísir/Getty

Brasilíumaðurinn Neymar hefur farið með himinskautum í upphafi tímabils með franska meistaraliðinu PSG.

Neymar gerði eina mark liðsins í 1-0 sigri á Brest í dag en PSG trónir á toppi deildarinnar og hefur skorað 25 mörk í fyrstu sjö leikjum deildarinnar.

Brasilíumaðurinn hefur ekki látið sitt eftir liggja en hann hefur byrjað tímabilið hreint frábærlega.

Í öllum keppnum hefur Neymar skorað 10 mörk og gefið sjö stoðsendingar í þeim níu leikjum sem hann hefur spilað. 

Til samanburðar má benda á að Neymar gerði 13 mörk og gaf átta stoðsendingar á síðasta tímabili en meiðsli áttu sinn þátt í því og spilaði kappinn aðeins 28 leiki í öllum keppnum.

Allt frá því að þessi þrítugi sóknarmaður steig fyrst fram á sjónarsviðið hefur hann verið óskabarn brasilísku þjóðarinnar enda hefur hann alltaf gefið allt sitt í landsliðið þar sem hann hefur skorað 74 mörk í 119 A-landsleikjum.

Framundan er HM í Katar í nóvember og má ætla að Neymar ætli sér þar að vinna sinn fyrsta alvöru titil með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×