Bíó og sjónvarp

Saga af átökum fjölskyldu úr íslenskum samtíma

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Tinna Hrafnsdóttir er spennt fyrir næsta verkefni.
Tinna Hrafnsdóttir er spennt fyrir næsta verkefni. Vísir/Vilhelm

Tökur eru að hefjast á sjónvarpsþáttaseríunni Heima er best. Heima er best er karakterdrifin sex þátta sería frá Tinnu Hrafnsdóttur leikkonu og leikstjóra. Þættirnir fara í sýningu á næsta ári.

Handritið er skrifað af Tyrfingi Tyrfingssyni, Ottó Geir Borg og Tinnu Hrafnsdóttur sem jafnframt á hugmyndina og leikstýrir þáttunum. Á þróunarstigi var Heima er best valið inn á samframleiðslumarkaði kvikmyndahátíðanna PÖFF Black Night Film Festival í Tallinn og á Gautaborgarhátíðinni.

Heima er best er saga af átökum fjölskyldu úr íslenskum samtíma. Tinna sagði frá áhuga sínum á viðfangsefninu í Einkalífinu hér á Vísi fyrr á þessu ári. 

„Fjölskyldusögur höfða til mín, sögur af manneskjum, mannlegri breytni og hversu flókin í eðli okkar við getum verið. Þessi flóknu fjölskyldutengsl sem eru grunnurinn af öllu í okkar lífi. Hvaðan þú kemur er það sem mótar þig sem einstakling. Það er í raun og veru það sem þú verður. Hvernig þú vinnur með það er í raun það sem gerir þig að því sem þú endar sem.“

Handritið er skrifað af Tyrfingi Tyrfingssyni, Ottó Geir Borg og Tinnu HrafnsdótturAðsent

Líklegri til að sundra en sameina

Hún sagði í viðtalinu að sterkir karakterar séu það sem leiði söguna í sjónvarpsþáttunum Heima er best. Aðalhlutverkið er í höndum  Hönnu Maríu Karlsdóttur en meðal annara leikara eru Pálmi Gestsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Vignir Rafn Valþórsson, Tinna Hrafnsdóttir, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Oddur Júlíusson, Sveinn Geirsson og fleiri.

„Þegar þrjú miðaldra systkini standa frammi fyrir því að erfa hvert sinn hlut í eignum foreldra sinna, vinsæla hvalaskoðunarfyrirtækinu og hlýlega sumarhúsinu, sem foreldrar þeirra byggðu frá grunni, skapast áður óþekktar aðstæður sem þarf að ná sátt um,“ segir um söguþráð þáttanna Heima er best.

„En þegar taka á sameiginlegar ákvarðanir um eignir sem systkinin þrjú telja sig öll eiga tilkall til á afar ólíkum forsendum, fara vandamálin fljótt að segja til sín og hlutir að koma upp á yfirborðið sem eru líklegri til að sundra í stað þess að sameina.“

Framleiðsla er í höndum Kiddu Rokk, Guðnýjar Guðjónsdóttur og Tinnu undir merkjum Polarama og Freyju Filmwork. Meðframleiðandi er belgíska fyrirtækið Lunanime en um alþjóðlega dreifingu sjá dreifingarfyrirtækin Red Arrow og Lumiere. Þættirnir verða sýndir hjá Sjónvarpi Símans en sjónvarpsstöðin Yle hefur þegar tryggt sér sýningarréttinn í Finnlandi.

Viðtalið við Tinnu má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

„Fjöl­skyldu­leyndar­mál sem enginn vildi tala um“

Kvikmyndin Skjálfti er byggð á metsölubók Auðar Jónsdóttur Stóra Skjálfta. Leikstjóri og handritshöfundur er Tinna Hrafnsdóttir og er óhætt að segja að valið sé vel í hlutverk en myndin skartar Anítu Briem, Eddu Björgvins, Jóhanni Sigurðarsyni, Bergi Ebba og fleiri frábærum leikurum.

Dynjandi lófaklapp á fyrstu sýningu Skjálfta

Íslenska kvikmyndin Skjálfti eftir Tinnu Hrafnsdóttur, sem byggð er á metsölubók Auðar Jónsdóttur Stóra skjálfta, var frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×