Kolbrún Þöll er þaulvön landsliðskona og var mikilvægur hluti hópsins sem gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari á síðasta ári. Þar var hún valin í úrvalslið mótsins og á endanum varð hún í öðru sæti í valinu á íþróttamanni Íslands árið 2021.
Kolbrún Þöll greinir frá þessu sjálf á Instagram-síðu sinni. Þar segir:
„Seinasta æfingin fyrir EM fór því miður ekki eins og ég ætlaði mér, hásinin var ekki alveg með mér í liði og ákvað að gefa sig kvöldið fyrir brottför.“
Landsliðskonan hefur þó fulla trú á samherjum sínum og ætlar sér ekki að missa af mótinu.
„Hlakka til að sjá stelpurnar mínar blómstra og uppskera í Lúxemborg og styðja við þær á hliðarlínunni,“ segir að endingu í Instagram-færslu hennar.