Altjón varð í bruna í Hafnarfirði í síðasta mánuði þegar kviknaði í rafmagnshlaupahjóli í íbúð og eldurinn náði að breiðast út á örskömmum tíma.
Á Youtube er að finna myndbönd þar sem eftirlitsmyndavélar ná því þegar kviknar í rafmagnshjólum og rafhlaðan springur.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur að minnsta kosti farið í fjögur útköll síðasta mánuðinn eftir að kviknaði í út frá rafmagnshlaupahjóli. Það er svipuð þróun og hefur verið annars staðar á Norðurlöndum.
„Það hefur orðið aukning hjá okkur á tilfellum þar sem eldsvoðar verða eftir að það kviknar í rafmagnshlaupahjóli. Þegar það gerist er eldurinn oft fljótur að breiðast út. Þá erum líka að fara meira í útköll þar sem kviknar í þessum hjólum þar sem þau standa ein og sér, “ segir Sverrir Björn Björnsson varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Hann segir einnig dæmi um eldsvoða eftir að það kviknaði í út frá rafmagnsreiðhjóli.
„Þetta getur verið einhver bilun í hjólum eða fólk kannski ekki að hlaða þau á réttum stöðum. En við sjáum þessa fjölgun á brunum af völdum lítilla rafmagnsfarartækja,“ segir hann.
Vara fólk við að hafa rafmagnsfarartæki inni hjá sér
Þeir ráða fólki frá því að geyma og hlaða rafmagnsfarartæki inni í íbúðum.
„Það getur orðið gríðarlegt tjón ef það kviknar í svona hjóli inni hjá fólki. Það er svo mikið afl í rafhlöðum þessara farartækja og ef þær springa getur allt nálægt brunnið á örskömmum tíma. Það getur því verið hættulegt að hafa þessi hjól inni, best er að hlaða þau úti,“ segir Halldór Óskarsson slökkviliðsmaður.
Þeir benda líka á að slysum af völdum rafmagnshlaupahjóla fari fjölgandi.
„Hraði fólks á þessum hjólum eykst sífellt og slysin verða þá alvarlegri. Við þurfum að læra betur að umgangast þessa nýju fararskjóta. Hvernig við ætlum að nota þá og hvar við getum hlaðið þá,“ segir Sverrir að lokum.