Fjallað er um skipulag löggæslunar á vef BBC. Búist er við að gríðarlegur fjöldi komi saman í Lundúnum næstu daga. Fyrst til þess að votta Elísabetu drottningu virðingu sína þar sem kista hennar liggur í Westminster Hall, svo á mánudaginn þegar jarðarförin verður haldin.
Ofan á þennan fjölda leggst svo mikill fjöldi erlendra þjóðhöfðingja sem munu verða viðstaddir jarðarförina. Í frétt BBC segir að jarðarförin sé eins opinber viðburður og hugsast getur, þar sem engir eiginlegir öryggisaðgangar eru við kirkjuna. Að viðbættum hinum mikla mannfjölda verður það ógerlegt fyrir lögreglu að kanna hvern og einn gest jarðarfarinnar og nærliggjandi svæða.

Í frétt BBC segir að augu heimsbyggðarinnar verði á Lundúnum á mánudaginn og því velt upp að því geti það reynst freistandi fyrir hryðjuverkamenn að láta til skarar skríða.
Gestirnir gegni mikilvægu löggæsluhlutverki
Lögreglan í Lundúnum mun þó gera allt sem í sínu valdi stendur til að útiloka að eitthvað slíkt eigi sér stað. Lögreglumenn frá öðrum svæðum Bretland munu veita Lundúnarlögreglu liðsauka auk fjölda hermanna úr öllum mögulegum herdeildum Bretlandshers.
Lögregla segir að fyrsta varnarlínan gegn mögulegum ógnum næstkomandi mánudag sé almenningur sjálfur. Eru þeir sem ætla að leggja leið sína að Westminster-svæðinu á mánudag beðnir um að hafa augun og eyru með í för, með öðrum orðum, vera vakandi fyrir mögulegum hættum og láta vita ef eitthvað óeðilegt á sér stað.

Á bak við tjöldin vinna leyniþjónustur Bretlands hörðum höndum að því að vakta einstaklinga sem eru nú þegar á lista þeirra yfir mögulega hryðjuverkamenn. Engir sénsar verða teknir á mánudaginn.
Biden tekur „Skrýmslið“ með
Mikill fjöldi lögreglumanna fylgist með fólksfjöldanum á öryggismyndavélum auk þess sem að lögreglumenn sérþjálfaðir í að koma augum á hættur í miklum mannfjölda munu fylgjast grannt með.
Reiknað er með að erlendir þjóðhöfðingjar munu byrja að mæta til Lundúna á föstudaginn. Viðvera þeirra við jarðarförina krefst einnig öryggisgæslu af hálfu lögreglunnar í Lundúnum. Sumir þeirra munu koma í fylgd með eigin líffvörðum og mun Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, meðal annars ferðast um Lundúni í brynvarða bílnum sem hann notast alla jafna við í Bandaríkjunum. Sá bíll gengur undir viðurnefnini „The Beast“ eða „Skrýmslið“.

Sem dæmi um það hversu umfangsmikil undirbúningur lögreglu er fyrir jarðarförina munu lögreglumenn opna, kanna og innsigla hvert einasta brunnlok í grennd við Westminster Abbey til þess að útiloka að þar sé hægt að koma fyrir sprengju. Þá mun hver einasti ljósastaur verða opnaður og kannaður í sama tilgangi.
Hver einasti staður þar sem mögulega er hægt að koma fyrir sprengju verður kannaður að því er fram kemur í frétt BBC, sem lesa má hér.