Málið hefur skekið nýsjálensku þjóðina, en líkin fundust af fjölskyldu sem hafði keypt töskurnar á uppboði í borginni Auckland á Nýja-Sjálandi. Töskurnar höfðu verið læstar í geymslu í nokkur ár þegar fjölskyldan keypti þær á uppboði á netinu.
Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að um væri að ræða lík af börnum frá Suður-Kóreu sem höfðu verið sjö og tíu ára þegar þau voru myrt. Leit hófst þó að móður barnanna í Suður-Kóreu sem hefur nú verið handtekin í borginni Ulsan í suðausturhluta landsins.
Yfirvöld á Nýja-Sjálandi hafa farið fram á að konan, sem er 42 ára, verði framseld til Nýja-Sjálands til að hægt verði að rétta yfir konunni.
Lögregluyfirvöld í Auckland og í Suður-Kóreu hafa unnið náið að rannsókn landsins, en talið er að konan, sem er nýsjálenskur ríkisborgari af suðurkóreskum uppruna, hafi flúið til Suður-Kóreu í kjölfar dauða barnanna árið 2018.
Nýsjálenskir fjölmiðlar segja fjölskylduna hafa búið í Auckland í nokkur ár og að faðir barnanna hafi látist af völdum krabbameins áður en konan myrti börnin. Þá segir að afar og ömmur barnanna búi enn í Nýja-Sjálandi.