Erlent

Flugu farandfólki óvænt til Martha's Vineyard

Samúel Karl Ólason skrifar
Hópur farandfólks og innflytjenda frá Venesúela í Martha's Vineyard.
Hópur farandfólks og innflytjenda frá Venesúela í Martha's Vineyard. AP/Ray Ewing

Ríkisstjórar Texas og Arizona í Bandaríkjunum, sem eru Repúblikanar, hafa um mánaða skeið sent farandfólk með rútum til borga í Bandaríkjunum, án þess að láta Demókratana sem stjórna þar vita. Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, tók þetta skrefinu lengra á dögunum og flaug um fimmtíu manneskjum frá Texast til Martha‘s Vineyard í Massachusetts.

Elizabeth Folcarelli, yfirmaður góðgerðarsamtaka og neyðarskýlis í Martha‘s Vineyard, sagði AP fréttaveitunni að 48 farandmenn og konur frá Venesúela hefðu mætt óvænt á skrifstofu hennar og með bæklinga sem vísuðu á samtök hennar.

„Þeim var sagt að þeirra biðu störf og húsnæði,“ sagði Folcarelli.

Hún sagði óvænta komu fólksins hafa tekið á fyrir hennar smáu starfsemi en samfélagið hafi komið saman og aðstoðað fólkið eftir bestu getu. Þau hafi fengið húsnæði, mat, læknisaðstoð og aðstoð varðandi hvaða valkosti þau standa frammi fyrir.

DeSantis hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla vestanhafs en Washington Post segir frá því að á fjáröflun í síðustu viku hafi ríkisstjórinn gantast með það að ríkisþing Flórída hefði sett tólf milljónir dala í sjóð sem nota ætti til að flytja farandfólk og innflytjendur. Repúblikanar í Bandaríkjunum vilja með þessu mótmæla landamærastefnu Joe Biden, forseta Bandaríkjanna.

„Ég er með þessa peninga. Ég vil hjálpa. Kannski förum við til Texas og hjálpum. Kannski sendum við þau til Chicago, Hollywood, Martha‘s Vineyard. Hver veit?“ sagði DeSantis við fagnaðarlæti þeirra sem voru á fundinum.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, þykir líklegur til að bjóða sig fram til forseta fyrir kosingarnar 2024 en hefur ekki vijlað segja af eða á hingað til. Það hefur Donald Trump, fyrrverandi forseti, ekki gert heldur.AP/Luis Santana

Eins og áður hafa ríkisstjórar Texas og Arizona ítrekað sent fólk með rútum til ríkja eins og Kaliforníu og New York.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, sendi frá sér tilkynningu í gær að ríkisstjórn Biden hefði hunsað það neyðarástand sem ríkt hafi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó sem hafi ógnað almenningi í Texas. Abbott hefur varið gífurlegu opinberu fjármagni í flutningana og það að gera innflytjendamál að pólitísku deilumáli fyrir komandi þingkosningar í nóvember.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, hefur beðið dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna um að rannsaka hvort fólksflutningar Repúblikana í pólitískum tilgangi brjóti ekki lög.

„Að flytja fjölskyldur, og þar á meðal börn, milli ríkja á fölskum forsendum er forkastanlegt, en það er einnig mögulega ólöglegt,“ sagði Newsom í bréfi til ráðuneytisins, sem hann birti einnig á Twitter.

Newsom sagði að einhverjir af þeim sem hefðu verið sendir til Martha‘s Vineyard hefðu staðið í þeirri trú að verið væri að senda þau til Boston og að þeim hefði verið sagt að þar myndu þau fá atvinnuleyfi.


Tengdar fréttir

Fundu 46 lík í yfirgefnum flutningabíl í Texas

Að minnsta kosti 46 lík fundust í yfirgefnum flutningabíl fyrir utan borgina San Antonio í Texas í gær. Svo virðist sem um hælisleitendur sé að ræða en sextán voru enn á lífi þegar lögreglumenn opnuðu bifreiðina.

Stakk upp á að skjóta eldflaugum á Mexíkó

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, stakk upp á því við Mark Esper, fyrrverandi varnarmálaráðherra, að her Bandaríkjanna gæti skotið eldflaugum á Mexíkó. Þannig væri hægt að þurrka út fíkniefnaframleiðendur Mexíkó og verksmiðjur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×