Íslenski boltinn

Gyða tók vítið sem Jasmín fiskaði: „Ég hefði alltaf heimtað að fá að taka þetta“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jasmín Erla Ingadóttir með boltann í leik gegn KR í sumar og Gyða Kristín Gunnarsdóttir í bakgrunn.
Jasmín Erla Ingadóttir með boltann í leik gegn KR í sumar og Gyða Kristín Gunnarsdóttir í bakgrunn. Vísir/Hulda Margrét

Aðeins einu marki munar á þeim Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur og Jasmín Erlu Ingadóttur í baráttunni um gullskóinn í Bestu deild kvenna. Þær eru liðsfélagar í Stjörnunni og baráttan hertist eftir leik liðsins á mánudag.

Stjarnan vann 2-0 sigur á Þrótti á mánudagskvöldið er 16. umferð deildarinnar kláraðist. Stjarnan heldur í vonina um Evrópusæti en liðið er í þriðja sæti með 31 stig, aðeins tveimur frá Breiðabliki í öðru sæti. Efstu tvö sæti deildarinnar veita keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu að ári.

Aðeins tvær umferðir eru eftir af deildinni. Stjarnan á leiki við Þór/KA og Keflavík en Breiðablik við Selfoss og Þrótt. Evrópubaráttan lifir en þá eru tveir leikmenn Stjörnunnar í baráttu um gullskóinn í deildinni.

Jasmín Erla Ingadóttir er markahæst með tíu mörk en Gyða Kristín Gunnarsdóttir er aðeins marki á eftir henni með níu. Þar á eftir koma þær Sandra María Jessen í Þór/KA og Brenna Lovera í Selfossi með átta hvor.

Klippa: Bestu mörkin: Baráttan um gullskóinn

Athygli var vakin á því í Bestu mörkunum að Gyða Kristín skoraði níunda mark sitt úr vítaspyrnu í leiknum við Þrótt á mánudaginn var. Vítaspyrnuna fiskaði Jasmín, sú markahæsta, en lét Gyðu eftir að taka spyrnuna.

„Ef að ég hefði fengið víti og staðan væri 10-8, ég hefði alltaf heimtað að fá að taka þetta,“ segir markadrottningin Helena Ólafsdóttir, þáttastjórnandi Bestu markanna.

„Harpa, þú hefðir gert það líka,“ bætti hún við og beindi orðum sínum að Hörpu Þorsteinsdóttur, fyrrum markahrók úr Stjörnunni.

„Já, alveg örugglega,“ sagði Harpa snögglega og hló við.

Brotið í aðdraganda vítaspyrnunnar, spyrnu Gyðu og umræðuna má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×