Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4 prósent í ágúst sem er mesta lækkun vísitölunnar frá því snemma árs 2019 og í frétt á vef SA er bent á að vísitalan sé byggð á þriggja mánaða meðaltali vegins fermetraverðs.
![](https://www.visir.is/i/AB4304191757DAF71A4A15FF7423D0ED687C93EBE575BE6FD265617E0C6899D9_713x0.jpg)
„Því eru áhrif síðustu vaxtahækkana og hertra lánaskilyrða Seðlabankans ekki komin fram nema að hluta til. Enn fremur sýna rannsóknir að vaxtabreytingar geti tekið langan tíma að hafa áhrif, t.d. á íbúðamarkað, en miklar vaxtahækkanir eru að óbreyttu til þess fallnar að lækka íbúðaverð.“
Taka samtökin fram að almennt skuli varast að lesa of mikið í einstaka mælingar en með þeim fyrirvara megi túlka mælinguna sem „hraðan viðsnúning“.
Eðli máls samkvæmt er mikil fylgni á milli húsnæðisverðs í verðbólgumælingum, þ.e. reiknaðrar húsaleigu, og vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Benda samtökin á að greindur hafi gert ráð fyrir 0,55-0,6 prósenta hækkun reiknaðrar húsaleigu í september en allar líkur séu á að það sé talsvert ofmat.
„Verðbólga er nú 9,7% og var 9,9% í júlí svo um væri að ræða mikla hjöðnun verðbólgu á skömmum tíma.“
Um þrjá fjórðu verðbólgunnar má rekja til reiknaðrar húsaleigu, matarkörfunnar, flugfargjalda og eldsneytis. Í frétt SA segir að heilt yfir virðast „verðbólguvindar teknir að snúast til hagstæðari áttar.“
![](https://www.visir.is/i/982F916BC9AC8A30938CCA1666E615A418A35CB9F917431C9AC6632980AE20AA_713x0.jpg)
Til viðbótar við lækkun íbúðaverðs hefur matvælaverð á heimsmarkaði lækkað undanfarnar vikur og leiða má líkur að því að hækkun flugfargjalda séu einskiptisáhrif vegna heimsfaraldursins. Þá hafa lækkanir á heimsmarkaðsverði eldsneytis skilað sér í lækkun bensín- og díselverði hér á landi á undanförnum vikum.
„Heilt yfir má því segja að verðbólguhorfurnar hafi að mörgu leyti batnað á síðustu vikum. Eftir stendur þó að verðbólga er enn langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans,“ segir í frétt SA.