Erlent

Fegurðar­drottning föst á flug­velli

Bjarki Sigurðsson skrifar
Han Lay var í öðru sæti í Miss Universe Mjanmar árið 2020.
Han Lay var í öðru sæti í Miss Universe Mjanmar árið 2020.

Mjanmarska fegurðardrottningin Han Lay hefur nú verið föst á flugvellinum í Bangkok í þrjá daga. Hún fær ekki að komast út af flugvellinum nema hún fljúgi til Mjanmar. Hún óttast að hún verði handtekin þar fyrir að hafa mótmælt herstjórninni.

Han Lay tók þátt í fegurðarsamkeppni í fyrra og notaði ræðu sína þar til þess mótmæla herstjórninni sem er við völd í Mjanmar. Að mótmæla stjórninni í landinu getur endað með fangelsisvist.

Han Lay hefur búið í Taílandi upp á síðkastið eftir að hafa fengið stöðu flóttamanns þar. Hún fór í heimsókn til Víetnam nýlega og þegar hún kom til baka til Taílands var henni neitað um inngöngu.

Yfirvöld í Taílandi segja að Han Lay hafi falsað ferðagögn sín og því fái hún ekki að komast inn í landið. Hún hefur þó ekki verið handtekin og segir utanríkisráðuneyti Taílands að ekki sé búið að ákveða hvort eigi að senda hana úr landi.

Talsmaður Han Lay segir í samtali við Reuters að þau óttist að hún verði send aftur til Mjanmar. Hún sé eftirlýst þar í landi og þau viti ekki hvað verði gert við hana þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×