Þetta staðfesta talsmenn rússneskra yfirvalda. Auk hinna látnu eru 24 sagðir hafa særst í árásinni.
Lögregla staðfestir að árásarmaðurinn hafi svipt sig lífi eftir árásina, en enn á eftir að bera kennsl á hann. Fjölmiðillinn Meduza segir þó að árásarmaðurinn hafi verið 25 ára karlmaður og fyrrverandi nemandi við skólann.
„Árásarmaðurinn framdi sjálfsvíg. Hann var klæddur í svartan stuttermabol með nasistatáknum og svo með lambhúshettu. Hann var ekki með nein persónuskilríki á sér og vinnum við nú að því að bera kennsl á hann,“ segir lögregla í samtali við RIA.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti færdæmdi í morgun árásina og lýsti hinni sem „ómanneskjuleri hryðjuverkaárás“.
Rússneskir fjölmiðlar segja árásina hafi hafist á meðan kennsla stóð yfir. Á samfélagsmiðlum hafa verið birt myndbönd þar sem sést til barna hlaupa eftir göngum og leita skjóls inni í kennslustofum.
Árásin varð í skóla númer 88 í borginni Izjevsk í héraðinu Udmurtia, en nemendur við skólann eru um þúsund. Bærinn er líklegast þekktastur fyrir að vera heimabær vopnaframleiðandans Kalishnikov, en bæði höfuðstöðvar og verksmiðja framleiðandans er að finna í borginni.