Erlent

Jarðvarnartilraun talin hafa heppnast

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd af yfirborði smástirnisins þegar DART nálgaðist óðfluga. Skjáskoti af sjónvarpsútsendingu NASA í gær.
Mynd af yfirborði smástirnisins þegar DART nálgaðist óðfluga. Skjáskoti af sjónvarpsútsendingu NASA í gær. AP/ASI/NASA

Fyrstu merki benda til þess að tilraun bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA til að breyta stefnu smástirnis hafi heppnast í gær. Það gæti þó tekið nokkra mánuði að staðfesta hversu mikið árekstur geimfars við smástirnið breytti stefnu þess.

Dart-geimfarið skall á smástirninu Dímorfos á um 22.500 kílómetra hraða um 11,3 milljón kílómetra frá jörðinni á tólfta tímanum að íslenskum tíma í gærkvöldi. Áreksturinn var fyrsta tilraun manna til þess að breyta braut smástirnis eða nokkurs annars fyrirbæri í geimnum, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Við höfum árekstur!“ hrópaði Elena Adams, leiðangursstjóri Dart, upp yfir sig þegar útvarpsmerki frá geimfarinu slokknaði skyndilega sem var afdráttarlaus vísbending um að það hefði skollið á yfirborði smástirnisins.

Hún sagði fréttamönnum síðar að svo virtist sem að tilraunin hefði gengið að óskum. Jarðarbúar gætu nú sofið værar.

Forðast örlög risaeðlanna

Með Dart-leiðangrinum freista vísindamenn þess að læra hvernig þeir geta hnikað til sporbraut smástirna sem gætu ógnað mannkyninu og forðað því frá sömu örlögum og risaeðlurnar hlutu.

„Risaeðlurnar voru ekki með geimáætlun til að hjálpa þeim að vita hvað var í vændum en það erum við,“ sagði Katherine Calvin, aðalloftslagsráðgjafi NASA, um leiðangurinn.

Dímorfos er um 160 metrar að þvermáli, á stærð við Grábrók í Borgarfirði, að því er kemur fram í færslu á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins. Það gengur um stærra smástirni, Dídýmos, sem er um 780 metrar að þvermáli, á stærð við Lómagnúp. Bæði ganga þau á meinlausri braut um sólina.

Búist var við að áreksturinn myndaði gíg á yfirborði Dímorfos og að efni úr honum þeyttist út í geim. Engin hætta átti að vera á að áreksturinn splundraði smástirninu. Dart er aðeins um hálft tonn að þyngd en smástirnið um fimm milljón tonn.

Vilja hnika til frekar en að sprengja

Áreksturinn átti að stytta sporbraut Dímorfosar um Dídýmos um tíu mínútur, aðeins um eitt prósent af umferðartímanum. Þó að breytingin sé lítil getur hún haft mikil áhrif til lengri tíma.

Stjörnufræðingar sem einbeita sér að jarðvörnum vilja frekar hnika sporbraut hættulegra hnatta örlítið til með góðum fyrirvara en að sprengja þá í loft upp mynda þannig aragrúa smærri brota sem gæti rignt yfir jörðina.

NASA telur að vel innan við helmingur um 25.000 fyrirbæra sem eru 140 metrar að þvermáli eða stærri í grennd við jörðina hafi verið kortlagður. Innan við eitt prósent milljóna smærri smástirna sem gætu valdið miklum usla á jörðinni séu þekkt.

Vera Rubin-athuganastöðin sem er nú í smíðum í Síle á að stórauka getu manna til þess að fylgjast með og finna smástirni.


Tengdar fréttir

Rista­stór við­burður innan vísinda­sam­fé­lagsins

Í kvöld fer fram risastór viðburður innan stjörnufræðisamfélagsins þegar NASA, geimvísindastofnun Bandaríkjanna, gerir tilraun til að færa smástirni. Það verður gert með því að brotlenda geimfarinu DART á smástirninu og allt fer þetta fram í beinni útsendingu.

Brot­­­lentu geim­farinu í beinni út­­­sendingu

Geimfari á vegum NASA, bandarísku geimvísindastofnunarinnar, verður brotlent á smástirni í kvöld. Tilgangurinn er að athuga hvort stefna smástirnisins breytist við áreksturinn og kanna þannig hvort hægt sé að breyta stefnu smástirnis, ef slíkt kynni að stefna að jörðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×