Karlmenn, konur og börn voru á meðal þeirra sem flúðu úr húsnæði innflytjendayfirvalda þar sem þeim hefur verið haldið frá því að húsleitin var gerð á föstudag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Húsleitin var samstarfsverkefni mexíkósku lögreglunnar og sveitar sjálfboðaliða frá Ísrael, þar á meðal fyrrverandi leyniþjónustumanna, sem hafa fylgst með söfnuðinum.
Fólkið tilheyrir Lev Tahor, umdeildum söfnuði sem var stofnaður í Ísrael. Hann er þekktur fyrir öfgakenndar reglur og barnabrúðkaup. Stúlkur allt niður í fjögurra ára gamlar eru látnar hylja líkama sinn frá toppi til táar með kufli.
Tveir félagar í söfnuðinum, einn Kanadamaður og annar Ísraeli, voru handteknir í húsleitinni og eru þeir grunaðir um mansal og kynferðisbrot. Tveggja annarra sem flúðu búðir fyrir húsleitina er enn leitað. Þá eru fimm aðrir grunaðir um brot á mexíkóskri innflytjendalöggjöf.
Fjölmiðlar í Mexíkó segja að hópurinn sem var í haldi hafi mótmælt varðhaldinu frá upphafi, ráðist á fangaverði og efnt til uppþota.
Ekki er ljóst hvert fólkið fór eftir flóttann. AP-fréttastofan segir að flutningabíll hafi flutt fólkið að landamærum Gvatemala þar sem söfnuðurinn er einnig með bækistöðvar.