Þegar þetta er skrifað hafa um 50 prósent atkvæða verið talin. Bolsonaro forseti er með rúm 46 prósent þeirra, en Lula tæp 45. Fái enginn frambjóðandi yfir 50 prósent atvkæða í fyrstu umferðinni er blásið til annarrar umferðar þar sem kjósendur geta valið á milli tveggja efstu. Ellefu eru í framboði en lengi hefur verið ljóst að í augum flestra kjósenda væri valið á milli Bolsonaro og Lula.
Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins um kosningarnar kemur þó fram að margt geti enn breyst. Þannig er bent á að enn eigi eftir að telja stóran hluta atkvæða í Rio og São Paulo, en það eru borgir þar sem Bolsonaro átti góðu gengi að fagna árið 2018. Að sama skapi séu atkvæðatölur frá norðausturhluta landsins, þar sem Lula er alla jafna sterkur á velli.
Fari svo að blása þurfi til annarrar umferðar kosninganna myndi hún fara fram sunnudaginn 30. október næstkomandi. Hver sem síðan verður hlutskarpastur í kosningunum mun sverja embættiseið 1. janúar á næsta ári.
Samkvæmt skoðanakönnunum í Brasilíu var líklegra að Lula myndi hafa betur, og jafnvel sigra Bolsonaro strax í fyrstu umferð. Sjálfur hefur Bolsonaro látið í veðri vaka að hann muni ekki viðurkenna úrslit kosninganna, fari þær svo að hann tapi.
Þannig hefur hann sáð efasemdarfræjum um heilindi kosninganna og sagt of auðvelt að svindla í rafrænum kosningum, en kosningar í Brasilíu hafa verið það síðan árið 1996.